Hlaðvarp Ásgarðs um menntamál
Kristrún Birgisdóttir • 7. mars 2025
19 þættir um menntamál og gæðastarf í skólastarfi!
Á undanförnum árum höfum við hjá Ásgarð skólaráðgjöf unnið að því að skapa vettvang fyrir faglega umræðu um menntamál með því að gefa út Hlaðvarp Ásgarðs um menntamál.
Hingað til höfum við gefið út 19 þætti, þar sem megin þemað hefur verið gæðamál. Þættirnir eru því oft og sérstaklega nýjustu sex þættirnir byggðir á viðmiðum um gæðastarf og eru hannaðir til að styðja kennara, skólastjórnendur og aðra sem starfa í menntakerfinu við að þróa og bæta skólastarf.
Í þáttunum ræðum við við gesti og ráðgjafa Ásgarðs, sem veita innsýn í lykilhugtök og aðferðir sem styðja við markvissa og árangursríka skólaþróun. Við höfum lagt ríka áherslu á að tengja umræðuna við praktískar lausnir og reynslu úr vettvangi skólastarfs, þannig að hlustendur geti nýtt sér þekkinguna í eigin starfi.
Hlaðvarpsþættirnir fjalla meðal annars um:
Viðmið um gæðastarf - hvað einkennir góðan skóla og hvernig getum við unnið markvisst að umbótum?
Nemendamiðað nám – aðferðir sem styrkja þátttöku og ábyrgð nemenda á eigin námi.
Leiðsagnarmat og námsmat – hvernig við metum nám og framfarir á árangursríkan hátt.
Faglegt lærdómssamfélag – hvernig kennarar og starfsfólk geta unnið saman að betri menntun og auknum gæðum í leik- námi og kennslu.
Hagnýtar lausnir í skólastarfi – leiðir til að innleiða nýjar aðferðir í skólastarfi með áherslu á að deila reynslu og áætlunum sem nýtast í starfi.
Hlaðvarpið hefur verið frábær leið til að miðla þekkingu og viðbrögðin hafa verið góð! Markmið okkar er að halda áfram að efla þessa umræðu og bjóða hlustendum upp á dýrmæt sjónarhorn og hagnýt ráð.
📢 Fylgstu með nýjustu þáttunum hér, allt telur þetta sem endurmenntun í starfi!

Í nýlegu hlaðvarpsviðtali Ásgarðs um menntamál ræddi Kristrún við Gunnar Gíslason, forstöðumann Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, um eitt umdeildasta en jafnframt mikilvægasta viðfangsefni íslensks skólastarfs: læsi barna og ungmenna. Samræðan var ekki aðeins yfirferð á kennsluaðferðum heldur gagnrýnin skoðun á því hvernig við skiljum læsi, hvernig við styðjum kennara og hvernig opinber umræða hefur einfaldað of flókin menntamál. Umræðan hófst á hljóðaaðferðinni, þeirri aðferð sem flestir Íslendingar þekkja úr eigin skólagöngu og sem enn er hornsteinn lestrarkennslu í íslenskum grunnskólum. Í grunninn felst hún í því að börn læra tengsl stafa og hljóða, ná tökum á einingum málsins og læra smám saman að hljóða sig í gegnum orð. Gunnar bendir á að þessi aðferð hafi verið við lýði í áratugi og sé enn notuð í nánast öllum skólum landsins. Þar er enginn ágreiningur. Ágreiningurinn hefst hins vegar þegar tæknileg lesfærni er sett jafnt og læsi í víðari merkingu. Að geta hljóðað sig í gegnum orð er mikilvægt fyrsta skref, en það eitt tryggir hvorki lesskilning né hæfni til að nota texta í merkingarbæru samhengi. Börn geta lesið orð án þess að skilja þau, rétt eins og þau geta sagt setningar án þess að tengja þær við eigin reynslu eða hugsun. Þar liggur kjarni vandans: ef skólinn stoppar við tæknilega færni, án þess að byggja ofan á hana merkingu, samræður, ritun og gagnrýna hugsun, verður læsið brothætt og ófullnægjandi. Í þessu samhengi kemur Byrjendalæsi til sögunnar – og sá misskilningur sem lengi hefur fylgt hugtakinu. Í opinberri umræðu hefur Byrjendalæsi gjarnan verið sett fram sem andstæða hljóðaaðferðar eða jafnvel sem heildræn aðferð sem hafi verið afsönnuð í alþjóðlegum rannsóknum. Gunnar hafnar þessari framsetningu alfarið. Byrjendalæsi er ekki heildaraðferð í þeim skilningi að hljóðaaðferð sé lögð til hliðar. Þvert á móti byggir Byrjendalæsi á samvirkni þar sem hljóðaaðferðin er grunnurinn en ofan á hana bætast fjölbreyttir þættir sem gera læsi að lifandi og merkingarbæru námi. Í Byrjendalæsi er gert ráð fyrir því að lestur, ritun, hlustun, tjáning og samræður fléttist saman frá fyrsta degi. Börn læra ekki aðeins að lesa orð, heldur að ræða texta, tengja hann við eigið líf, skapa eigin texta og þróa skilning á því hvernig tungumálið virkar í mismunandi aðstæðum. Þessi nálgun gerir ráð fyrir virkri þátttöku nemenda og krefst fagmennsku kennara. Hún er ekki einföld „aðferð“ sem hægt er að innleiða með námskeiðum einum saman, heldur heildstætt kennsluskipulag sem kallar á stöðuga starfsþróun, samráð og ígrundun. Í samtalinu er einnig dregið skýrt fram hversu mikilvægt er að skólakerfið viðurkenni að börn koma í skólann með ólíkan bakgrunn og ólíka stöðu í læsi. Sum börn hefja skólagöngu þegar þau eru þegar orðin tæknilega læs, á meðan önnur hafa lítið sem ekkert forskot. Þegar öllum er mætt með sömu innlögn, án tillits til stöðu eða þarfa, skapast hætta á að sum börn staðni á meðan önnur dragist aftur úr. Sérstaklega er varað við því að börn sem eru tilbúin í dýpri læsisvinnu sitji áfram í stafainnlögn sem þau hafa þegar náð tökum á, í stað þess að fá að þróa lesskilning, ritun og gagnrýna hugsun. Þessi umræða tengist beint spurningum um áhuga barna og tengsl þeirra við skólastarf. Gunnar og Kristrún ræða sérstaklega hvernig skólaforðun og áhugaleysi, ekki síst meðal drengja, getur átt rætur í því að viðfangsefni námsins tengist ekki reynsluheimi nemenda. Þegar börn sjá ekki tilgang með því sem þau eru að gera kviknar hvorki innri hvöt né löngun til að læra. Þar verður læsi ekki aðeins kennslufræðilegt viðfangsefni heldur spurning um tengsl, merkingu og menningu. Eitt sterkasta stef samtalsins er hugmyndin um læsi sem samfellt ferli en ekki afmarkaðan áfanga á yngsta stigi. Of oft hefur umræðan um læsi einskorðast við fyrstu skólaárin, líkt og vandinn leysist sjálfkrafa þegar börn hafa lært að lesa. Gunnar bendir á að reynslan sýni annað. Dýfan í læsisárangri virðist oft hefjast eftir yngsta stig, þegar gert er ráð fyrir að nemendur séu orðnir læsir og geti sjálfir unnið úr texta í vinnubókum og verkefnum. Þar vantar markvissa kennslu í lesskilningi, hugtakavinnu og textatúlkun, sem eru lykilforsendur þess að nemendur nái árangri síðar í námi. Í þessu ljósi verður starfsþróun kennara lykilatriði. Byrjendalæsi, eins og það er þróað og stutt af Miðstöð skólaþróunar, er ekki kynnt sem ríkisaðferð heldur sem valkostur sem skólar taka upp á faglegum forsendum. Þar er lögð áhersla á gæðaviðmið, sjálfsmat, ytra mat og stöðugan stuðning. Skólar sem taka þátt eru heimsóttir, kennslustundir skoðaðar og samtal átt um það hvernig bæta megi starf. Markmiðið er ekki að stimpla eða refsa heldur að byggja upp faglegt lærdómssamfélag þar sem kennarar fá raunverulegan stuðning í starfi sínu. Samtalið víkkar síðan út sjónarhornið enn frekar og beinir athyglinni að samfélagslegum forsendum læsis. Þar ber sérstaklega á góma skort á fjölbreyttu lesefni fyrir börn og ungmenni á íslensku. Þegar unglingar lesa af ástríðu – til dæmis flókin spilahandrit, sögubækur og texta á mörgum tungumálum – en skólastarfið nær ekki að tengja við þann lestur skapast gjá milli þess læsis sem lifir utan skólans og þess sem skólinn metur og mælir. Þetta vekur spurningar um hvort hefðbundin próf nái í raun að fanga þá hæfni sem börn og ungmenni búa yfir í samtímasamfélagi. Þrátt fyrir gagnrýni og áskoranir er tónn samtalsins ekki svartsýnn. Þvert á móti er bent á að íslenskt skólakerfi skili börnum almennt vel undirbúnum til frekara náms og lífs, hvort sem leiðin liggur í framhaldsskóla, háskóla eða iðn- og verkmenntun. Áskorunin felst ekki í því að gera lítið úr því sem vel er gert, heldur að þora að horfast í augu við það sem má bæta – og gera það á grundvelli rannsókna, fagmennsku og trausts til kennara. Að lokum standa eftir skýr skilaboð: Læsi er ekki spurning um að velja eina aðferð fram yfir aðra, heldur um að byggja upp samfellt, merkingarbært og sanngjarnt skólastarf sem mætir börnum þar sem þau eru stödd. Til þess þarf víðari sýn, meiri stuðning og dýpri umræðu en þá sem of oft hefur einkennt opinbera umræðu um menntamál. Hér er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni

Innra mat í brennidepli – samtal, samvinna og innblástur Tæplega 60 stjórnendur úr leik- og grunnskólum tóku þátt í hagnýtri vinnustofu um innra mat og gæðastarf sem haldin var á Litla Torgi í Háskóla Íslands þann 23. október. Vinnustofan, sem skipulögð var fyrir Samtök sjálfstætt starfandi skóla, var hluti af metnaðarfullum áherslum samtakanna til að efla faglegt samtal, festa góðan starfsanda í sessi og byggja upp sameiginlegt verklag í gæðamálum sjálfstætt starfandi skóla. Markmiðið er að sjálfstætt starfandi skólar ástundi fyrirmyndar gæðastarfshætti og verði leiðandi í gæðamálum á Íslandi. Ráðgjafar Ásgarðs leiddu vinnustofuna þar sem markmiðið var að draga flókin vandamál saman á einblöðung og finna lausnir byggðar á gagnaöflun og betrumbættum starfsháttum. Þátttakendur unnu að fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum í hópum, svo sem að takast á við áskoranir eins og matvendni nemenda eða þegar stór hluti nemenda er enn ólæs við upphaf 2. bekkjar. Hóparnir þróuðu saman hagnýtar lausnir með orðfæri og aðferðum innra mats, með húmor og vaxandi hugarfar að leiðarljósi. Mikill metnaður þátttakanda var augljós sem og einbeittur vilji til að efla skilning á gæðamálum í menntastofnunum, samvinna var virk og þátttakendur óhræddir við að láta ljós sitt skína. Þátttakendur lýstu yfir mikilli ánægju með dagskrána og framsetninguna og sýndu áhuga á frekari stuðningi við innleiðingu gæðastarfs. Ekki skemmdi fyrir að María Ösp Ómarsdóttir, skólastýra í Árbæ, Árborg, lýsti mjög metnaðarfullri innleiðingu gæðastarfs í leikskólanum sínum. Þar hefur Maríu tekist að leiða starfsmannahópinn með miklum metnaði við að innleiða kerfisbundið innra mat á stuttum tíma, samhliða uppbyggingu skólastarfsins. Hún sýndi okkur að gæðastarf byggir á þátttöku starfsfólksins og sameiginlegum skilningi allra á markmiðum þess. Um var að ræða áhrifamikla frásögn af gríðarlega yfirgripsmikilli vinnu sem hefur skilað stöðugu og öruggu gæðastarfi í skólanum. Vinnustofan undirstrikaði mikilvægi samtals, samvinnu og stöðugrar endurskoðunar sem lykilþátta í gæðastarfi sjálfstætt starfandi skóla. Með markvissum aðferðum og samstilltu átaki verður innra mat ekki aðeins formlegt ferli, heldur lifandi verkfæri sem eflir skólastarf og farsæld barna. Við þökkum traustið sem okkur var sýnt með því að fela okkur að leiða þessa vinnustofu. Einnig þökkum við hlý orð og góðar viðtökur því þáttakendur voru ósparir á hrósið og lýstu yfir hversu gagnleg vinnan var. Kristrún, Tinna og Anna María

Í nýjasta hlaðvarpi Ásgarðs ræða Kristrún Lind og Anna María Þorkelsdóttir mikilvægi kennsluáætlana í grunnskólum og þá staðreynd að þær vantar víða. Ný rannsókn Ásgarðs leiddi í ljós að einungis 16% grunnskóla landsins voru með virkar kennsluáætlanir í gildi fyrir haustið 2025 þegar málið var skoðað dagana 10.-14. október. Á þeim tímapunkti er um það bil 20% af skólaárinu þegar liðið. Það er alvarlegt þegar litið er til þess að slíkar áætlanir eru bæði lögbundnar og grundvöllur góðs skólastarfs (1). Kennsluáætlanir eru lykilatriði í gæðastarfi skóla – þær tryggja samfellu í námi, gera nemendum kleift að skilja tilganginn með náminu og gera foreldrum kleift að fylgjast með og styðja börnin sín. Þegar áætlanir eru aðgengilegar á heimasíðu skólans fá bæði foreldrar og yfirvöld innsýn í áherslur í námi, kennslu og ekki síður námsmati (2). Í umræðunni kemur fram að skólum vanti oft leiðbeiningar og stuðning við gerð kennsluáætlana og hvernig má bæta stuðninginn. Einnig kemur fram að í mörgum tilvikum eru kennsluáætlanir geymdar lokaðar inni í kerfum eins og Mentor – sem torveldar gæðastarfi og hindrar samfellu milli árganga. Ásgarður hefur unnið með fjölmörgum skólum að því að þróa sex vikna kennsluáætlanir. Þær tryggja að kennslan sé markviss, heildstæð og í sífelldri endurskoðun. Með sex vikna lotum er auðveldara að meta árangur, færa áherslur og viðhalda gæðum námsins. Eitt helsta vandamál íslenskra grunnskóla er skortur á kerfisbundnum stuðningi við áætlanagerð kennara og styrkri faglegri forystu innan skólanna. Fjárfesta þarf í stuðningi við starfsfólk til að efla gæði skólanna og gagnsæi á starfseminni. Nýr kennari sem kemur inn í skóla ætti að geta gengið að sameiginlegum gögnum og kennsluáætlunum – ekki þurfa að byrja frá grunni. Þessi samfella er lykillinn að fagmennsku, gæðum og vellíðan nemenda og kennara3. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að 84% grunnskóla skorti virkar kennsluáætlanir. Góðar áætlanir eru ekki formsatriði – þær eru grunnur að farsæld barna, faglegu skólastarfi og traustu samstarfi heimila og skóla4. Hægt er að hlusta á hlaðvarpið hér í fullri lengd. Kristrún Lind Birgisdóttir Eigandi og ráðgjafi í Ásgarði Heimildir Lög um grunnskóla nr. 91/2008, 29. gr. og 31. gr. Um skólanámskrár og starfsáætlanir grunnskóla. Sótt af: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008091.html ↩ Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti. (2011). Kafli 12: Skólanámskrá og starfsáætlun skóla, bls. 46–48. Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Sótt af: https://www.stjornarradid.is (afrit í eigu notanda) ↩ Reglugerð nr. 1355/2022 um hæfniramma kennara og skólastjórnenda, sérstaklega kafli 5–7 um uppeldis- og kennslufræði, skipulag kennslu og faglegt samstarf. Sótt af: https://island.is/reglugerdir/nr/1355-2022 ↩ Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti (2011), kafli 1.3 og 7.5. Þar er lögð áhersla á fagmennsku kennara, mikilvægi skólabrags og upplýsingagjöf til foreldra. ↩

