Hvað svo? Stefna OECD í menntamálum og áhrif hennar á Íslandi.

noreply • 22. apríl 2024

  Þegar tækifæri er til breytinga á áherslum náms og kennslu er ágætt að stoppa og ígrunda af hverju við erum að gera það sem gerum. Fyrir hvern erum við að mennta börn? Er það fyrir þau, næsta skólastig, fyrir samfélagið eins og það er núna eða fyrir þau og samfélagið til framtíðar?

Hvað sem okkur kann að finnast um það hér á Íslandi, hafa stefnur OECD í menntamálum bein áhrif á stefnur Íslands.  OECD er með stefnu í gangi sem kallast Wellbeing og við höfum þýtt sem farsæld. Inclusion er líka stefna OECD og reyndar fleiri stofnanna eins og SÞ og UNESCO og það hefur verið þýtt sem inngilding, þannig að þó að þýðingar á hugtökum séu okkar, eru stefnurnar það ekki.  OECD kom líka að gerð menntastefnu ríkisins sem er í gildi til 2030. Stefnan er í takt við þær þjóðfélagsbreytingar sem þurfa að eiga sér stað til að undirbúa börnin okkar fyrir þeirra framtíð sem er um leið okkar framtíð. Allar slíkar breytingar þurfa að byggja á rannsóknum, stöðu samfélaga, greiningu á framtíðarþörfum þeirra og allra einstaklinga sem búa á þessari jörð. 

Börn í dag eru ekki eins og börn voru og okkur mun aldrei vera ágengt ef að við ætlum að troða þeim í kassana sem við, sem eldri erum, var raðað í. Samfélagið sem við vorum undirbúin undir, hefur breyst. Þarfir samfélaga hafa breyst.  OECD hefur metnað og fjármagn til að stuðla að þeim breytingum sem þarf að setja á oddinn. Fyrsta flokks skólaþróun væri líklega of há fjárhagsleg byrði á okkar litlu örþjóð og því er það alls ekki neikvætt fyrir okkur að fylgja áherslum OECD, þó að sumum virðist finnast það. Svona lærum við af því sem aðrir hafa reynt og stefnum í eina sameiginlega átt.  Við erum öll hluti af sömu jörðinni og bæði fólk og samfélög hafa sömu grunnþarfir, hvar sem það býr. Markmið heimsmarkmiða og Barnasáttmála SÞ koma líka inn í þessa breytu ásamt stefnu UNESCO í menntamálum. Ef að þjóð eins og Ísland breytir engu eða við breytum of hægt, verðum við hægt og hljótt samfélag sem fylgir ekki þróun í síkvikum heimi og þá er ekki von á góðu. Við erum aldrei að fara til baka, það er alveg augljóst enda engin ástæða til þess.  Við erum að skoða breytingar á okkar aðalnámskrám núna og þegar breytingar eiga sér stað, sem eru ekki í samræmi við t.d. menntastefnu ríkisins eða stefnu aðalnámskráa (sem er ansi skýr á að grunnþættir menntunar og lykilhæfni sé sú hæfni sem eigi að fléttast inn í alla kennslu), þá er ágætt að horfa á hvert við stefnum næst. Það má alveg gefa sér að OECD muni hafi eitthvað um það að segja.

Árið 2018 hóf OECD endurskoðun á áherslum sambandins (og þar á meðal PISA) sem kallast  PISA High Performing Systems for Tomorrow (HPST) . Þetta ber með sér grundvallarbreytingum á markmiðum náms. Nú ætla ég ekki að segja að þær hugmyndir sem eru uppi núna, verði það sem stýrir síðar en það eru teikn á lofti um að svo verði (og þetta er hluti af farsældar vinnunni). Ástæða þess að það er sé hægt að gefa sér að þessar breytingar verði ofan á er einföld, því að krafan um þær er að ósk þjóða eins og Finnlands og Singapore sem skora vel á PISA prófunum. Þessar þjóðir og fleiri hafa óskað eftir endurskoðun á prófinu og það vill svo skemmtilega til að það er íslendingur sem fékk það verkefni að aðstoða sambandið. Sá íslendingur er Kristján Kristjánsson heimspekingur. Stefnan kallast á ensku Education for Human Flourishing (ég ætla ekki að reyna að þýða það).  Þarna er verið að leggja áherslu á heildræna lausn fyrir skóla og menntakerfi þar sem lykilhæfni er þróuð áfram, nám verður einstaklingsmiðaðra en það er núna til að mæta þörfum fjölbreyttra nemenda og það samþættist tækni og tækniþróun. Þetta ákvæði er t.d. mjög mikilvægt því að það vita allir sem vilja vita það að gervigreindin er komin til að vera og það er okkar að læra að nýta hana og byggja hana upp, þannig að hún hafi ekki neikvæð áhrif á líf okkar og þeirra sem á eftir okkur koma. Við megum ekki gleyma að enn stjórnum við þessari greind, hvað sem svo sem verður síðar. Siðferðilegur styrkleiki er því mikilvæg hæfni að hafa fyrir alla, bæði til að geta þroskast í dag og til að taka á við áskoranir framtíðar. 

Það eru þrjú lykilviðmið sem þessi stefna gengur út á að við eflum í skólum og það eru (á ensku aftur) adaptive problem-solving, ethical decision-making, and aesthetic appreciation. Eins og Kristján hefur komið inn á er þetta tekið frá Aristóteles en þróað til að passa inn í nútímann (Neo-Aristotelanism). Lausnamiðun höfum við haft sem markmið lengi en kannski ekki í þessum samhengi. Okkur er ætlað að vinna með rauntengd verkefni með nemendum, þar sem reynir á siðferðisþrek þeirra og lausnamiðun sem tengist svo fagurfræðilegri upplifun (enska: awe)). Ef að við horfum á námsgryfju James Nottingham þá sýnir hann líka hvernig þessi tilfinning gæti eflt námsárangur nemenda þegar yfir gryfjuna er komið. 

Þessi lykilviðmið eru hluti af þeirri lykilhæfni þarf því að efla í skólum. Við þurfum að leggja enn meiri áherslu á lykilhæfni hérlendis en alls ekki minni áherslu. Það voru mistök við yfirstandandi endurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla að flétta henni ekki inn í öll fög eða bara sleppa því að faggreinaskipta hæfnviðmiðum og hugsa þetta allt upp á nýtt. Það eru markmið með öllum faggreinum eins og fram kemur í aðalnámskránni en þessi faggreinaskiptu hæfniviðmið eru óþarfi að mínu mati. Ef að nemendur geta rökstutt það sem kennari vill að þau læri, er það hæfni sem á við um flestar faggreinar. Ef að kennari vill að nemandi geti tjáð hugsanir sínar, sýnt þrautseigju í náminu og sýnt siðferðilega hæfni í samskiptum, þá á það líka við um allar greinar. Kerfið þarf ekki að ákveða að nemendur eigi að læra eitthvað ákveðið,  því við höfum ekki hugmynd um hversu lengi það verði nauðsynleg þekking að hafa. Kennari á að geta þjálfað hæfni sem nýtist nemendum til framtíðar, hæfni sem gerir þeim kleift að læra að læra og sýna 21. aldar hæfnina sem við eigum að vera að efla með þeim. Þekkingin sem þar liggur að baki er ekki eins mikilvæg í stóra samhenginu þó að vissulega sé hún grundvöllur náms. En hvort að nemendur læra um og geti sýnt hæfnina að nýta það sem þau hafa lært um rafmagn á yngsta stigi, miðstigi og elsta stigi, þarf ekki að vera mikilvæg hæfni. Ef að kennari vill að nemendur læra um það í tengslum við eitthvað annað, þá er það það sem skiptir máli - ekki aldur þeirra. Kennurum er alveg treystandi til að ákveða hvað hver námshópur lærir svo lengi sem hann veit hvaða hæfni hann á að vera að þjálfa með nemendahópnum.  Fyrir nokkrum árum var nám og kennsla tekin í gegn í Sönderskov skolen í Danmörku. Þau fóru í svokallað LEAPS verkefni og eins og skólastjórinn kynnti þetta þá stóð ekki til að kenna dönsku kóngaröðina, bara af því að það hafi alltaf verið gert. Það var ekki bannað að kenna hana, heldur þurfi verkefnið að passa inn í námsferli sem í þessu tilfelli tengist vísindum (S stendur fyrir science) og ef að hún gerði það ekki, var henni sleppt. Við verðum að vera duglegri að gagnrýna hvað við kennum og vita nákvæmlega af hverju við erum að kenna það sem við leggjum fyrir nemendur.  Markmið náms er aldrei að kenna eitthvað svo að nemendur séu undirbúnir fyrir næstu námsbók, bækur stýra ekki námi og eru aldrei markmið náms.  


Ástæða þess að þessar fyrrnefndu þjóðir óskuðu eftir áherslubreytingu er einmitt að það er markmið menntakerfa að þjálfa hæfni nemenda til framtíðar, eða eins og Andreas Schleicher menntastjóri OECD skrifaði fyrir mörgum árum, að mennta nemendur fyrir þeirra framtíð en ekki okkar fortíð . Þeirra framtíð er samofin gervigreind og það er mjög ljóst af bæði umræðum hérlendis og erlendis að skólakerfið þurfi að gera betur til að mæta öllum nemendum. Ef að við viljum vera tilbúin fyrir þessi framtíðarstef, þá þurfum við í sameiningu að eiga samtal um hvað sé í raun gæða kennsla til framtíðar sem nýtist nemendum okkar. Að undirbúa nemendur betur undir tæknina og áhrif hennar á líf þeirra, þá er ekki verið að tala um að nota tölvur, bara til að nota þær. 

Þegar við tölum um stafræna tækni í kennslu og hæfni nemenda til að nýta hana,  er mikilvægt að skilja að það þýðir ekki endilega að allt nám fari fram í tölvum. Stafræn tækni er tól sem getur dýpkað nám og gert það sveigjanlegra, en hún á ekki að útiloka hefðbundnar kennsluaðferðir eða takmarka sköpunargáfu nemenda og kennara. Sköpunarhæfnin er ekki bundin við tæknina, heldur sprottin úr ímyndun, þekkingu og hæfni þeirra sem hana nota. 

Stafræn tækni er til dæmis notuð til að opna aðgang að fjölbreyttum upplýsingum, stuðla að samvinnu milli nemenda sem eru ekki á sama stað (t.d. á milli nemenda sem eru í skólastofunni og hinna sem þurfa annað umhverfi) og veita aðgang að sérhæfðum forritum sem geta hjálpað til við rannsóknir og verkefnavinnu. Hún býður upp á fjölbreyttar leiðir til að mæta þörfum nemenda með mismunandi  áhugasvið og styrkleika og getur þannig verið mikilvægt verkfæri í kennslu til að mæta fjölbreyttum nemendahóp. Markmiðið með notkun stafrænnar tækni ætti að vera að styrkja og bæta nám nemenda, en ekki að taka yfir kennsluna eða færa hana alfarið yfir á rafrænt form. Það er lykilatriði að kennarar noti stafræna tækni gagnrýnið og á  markvissan hátt, með það fyrir augum að stuðla að dýpri skilningi og þroska nemenda. 

Í ljósi þessa yfirvofandi breytinga á menntakerfinu, sem miða að því að undirbúa nemendur betur fyrir framtíðina, skiptir máli að hafa áhrifarík mælitæki til að meta framfarir og hæfni. Það skiptir þó miklu máli hvað við erum að meta.  Námsmat er ekki aðeins mikilvægt fyrir nemendur, til að sjá og skilja eigin framfarir, heldur einnig fyrir yfirvöld sem vilja fylgjast með árangri í alþjóðlegum samanburði eins og PISA prófið býður upp á. 

Við þurfum því að þróa námsmat sem tekur mið af þessum breyttu áherslum  og OECD er að þróa slíkt mælitæki til að geta breytt PISA prófinu.  Mælitækið ætti ekki aðeins að meta hefðbundna þekkingu, heldur einnig hæfni eins og lausnaleit, siðferðislega ákvarðanatöku og fagurfræðilega þekkingu/hrifningu, sem eru lykilþættir í nýrri menntastefnu. Með því að nýta fjölbreyttar matsaðferðir, svo sem jafningjamat, verkefnamiðað mat (leiðsagnarmat) og sjálfsmat, getum við veitt réttmætara og heildstæðara yfirlit yfir hæfni og þroska nemenda um leið og við að undirbúa nemendur undir að taka þessi blessuðu PISA próf sem við fáum á einhverjum tímapunkti.  Veljum við þessa nálgun mun það ekki aðeins veita okkur tæki til að bæta menntun heldur einnig styrkja stöðu okkar í alþjóðlegum samanburði með því að sýna fram á raunverulegan árangur í því að búa til frjóan jarðveg fyrir hæfileika og færni sem munu skipta máli í framtíðinni.


Þetta þýðir líka að starfsþróun kennara þarf að snúast um þetta atriði. Kennarar þurfa að hafa hæfni til að bjóða upp á vel skipulagt nám með skýrum markmiðum, hafa verkfæri/þekkingu til að bjóða upp á sveigjanlegt nám fyrir öll, með áherslu á stafrænt læsi, eflingu leiðtogahæfni nemenda og þau sjálf þurfa að hafa getu til að vinna með öðrum. Markmið þeirrar teymisvinnu væri að því að byggja upp námsumhverfi fyrir alla nemendur þar sem þau geta vaxið og dafnað út frá eigin forsendum og öll hafi tækifæri til að sýna framfarir í námi án þess að það hafi neikvæð áhrif á samskiptahæfni þeirra eða líðan. Það er mikilvægt að kennarar njóti aukins stuðnings við að tileinka sér nýjar aðferðir og tækni. Þjálfun og endurmenntun verður að vera í boði til að tryggja að kennarar séu vel undirbúnir til að mæta þörfum fjölbreyttra nemendahópa og nýta tækni á skilvirkan hátt til að efla nám . Þau sem standa að þessum breytingum eru mjög skýr á því  að þetta er ekki ný faggrein, það er ekki verið að skipta neinu út eða leggja ofan á annað sem er gert, heldur eigi að flétta þetta inn í allt nám og alla kennslu.  Það góða við PISA er að það sýnir okkur að börnunum okkar líður vel og að þessar áherslubreytingar eru ekki endilega fyrir okkur, heldur fyrir aðrar þjóðir sem sýna meiri vanlíðan ungs fólks. Umræða í fréttamiðlum hérlendis benda þó til misskiptingar gæða, þar sem t.d. nemendur sem eiga ekki heima í hefðbundnu námsumhverfi vegna ýmissa mismunandi áskorana verða hornreka í menntakerfinu. Við sjáum líka að nýbúarnir okkar eru ekki að sýna nægjanlegar framfarir, þannig að þessar áherslubreytingar OECD mun kannski hjálpa a okkur að gera okkar menntakerfi enn betra fyrir öll. 


Að lokum má ekki gleyma því að foreldrar og aðrir forráðamenn hafa lykilhlutverk í því að styðja við breytingar í menntakerfinu. Með því að taka virkan þátt í skólasamfélaginu og umræðum um menntamál og þarfir menntakerfisins til framtíðar, geta þeir hjálpað til við að móta stefnur sem styðja við velferð og þroska allra nemenda. Það virðist oft gleymast í umræðu á milli heimilis og skóla að skólar hafa þróast og þurfa að gera það áfram og við sem samfélag þurfum að vera samtaka í þeirri vegferð. 


Ég er spennt fyrir þessari framtíðarsýn, ég vona að þú sért það líka.


Ef að þú vilt skoða þær leiðir sem OECD er að velta fyrir sér að í þróun menntastefna til framtíðar þá er hægt að sjá það hér: https://www.youtube.com/watch?v=WbE-cSsvneY


Heimildir:



Anna María Þorkelsdóttir
Ráðgjafi hjá Ásgarði - skólaráðgjöf









Eftir Tinna Pálsdóttir 12. september 2025
Haustið er búið að vera líflegt og hefur einkennst af því að hjálpa skólum við að koma skipulagi á framsetningu og skipulagi á námi og kennslu. Námsvísar hafa í gegnum tíðina orðið að lykilverkfæri í því ferli. Skipulagsvinnan hefst ekki þegar nemendur mæta í skólann að hausti heldur strax að vori, áður en sumarfrí tekur við. Þá koma kennarar og stjórnendur saman til að setja upp grófa áætlun fyrir allt skólaárið. Þetta þýðir að þegar starfsfólk mætir aftur í ágúst er heildarskipulagið tilbúið og hægt er að einbeita sér að því að fínpússa fyrstu tímabilin. Slík nálgun tryggir að nemendur fari í gegnum öll þau viðfangsefni sem áætlað er að vinna með og að ekkert gleymist, óháð því hvernig skólaárið þróast. Skólaárinu er skipt niður í sex tímabil, hvert um sex vikur og á hverju tímabili er einn grunnþáttur menntunar hafður að leiðarljósi. Kennarar hengja kennsluáætlanir sínar á námsvísi (ársskipulag), sem tryggir bæði samræmi og gagnsæi. Þessi skipting í styttri lotur hefur reynst afar árangursrík. Hún hjálpar nemendum að sjá skýrari ramma utan um námið sitt og gefur kennurum betri yfirsýn yfir hæfniviðmið, námsmarkmið og matsviðmið. Þannig verður leiðsagnarmat skilvirkara og markmið námsins yfirstíganlegra. Á fundi sem haldinn var á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu á dögunum um skipulag náms, kennslu og mats í hæfnimiðuðu skólastarfi var þessi nálgun sérstaklega kynnt. Þar var mælst til þess að skólar skipuleggi nám og kennslu í 6–8 vikna tímabilum til að auðvelda yfirsýn, gera viðmiðin skýrari og stuðla að skilvirkara námi. Með þessum hætti verður námið markvissara, nemendur taka virkan þátt í eigin framvindu og kennarar hafa betra aðhald í sínum undirbúningi. Sumir skólar eru nýbúnir að taka upp þessa skipulagningu, en aðrir hafa unnið með hana árum saman. Reynsluboltarnir hafa þróað skýrar aðferðir til að nýta skipulagið, en það sem sameinar alla er sú sannfæring að ársskipulagið sé orðið að lykilatriði í gæðastarfi. Dæmi um skóla sem hafa tekið upp skýrt ársfyrirkomulag eru: Auðarskóli Ásgarðsskóli Bíldudalsskóli Eldhamrar Giljaskóli Grunnskóli Bolungarvíkur Grunnskóli Fjallabyggðar Grunnskóli Grundarfjarðar Grunnskóli Hólmavíkur Grunnskóli Húnaþings vestra Grunnskóli Önundarfjarðar Grunnskólinn á Suðureyri Grunnskólinn á Þingeyri Grunnskólinn í Stykkishólmi Höfðaskóli Lækjarbrekka Leikskóli Dalabyggðar Patreksskóli Araklettur Reykhólaskóli Sólvellir Tálknafjarðarskóli Fleiri skólar hafa auk þess tekið upp svokallaða þriggja ára rúllu. Það þýðir að þeir skipuleggja kennsluna með langtímasýn, þar sem áherslur hvers árs eru skýrar og tryggt er að öll markmið aðalnámskrár grunnskóla séu uppfyllt. Þannig missir enginn skóli sjónar á heildarmyndinni og nemendur fá samfellu í náminu sem nær yfir lengri tíma. Ávinningurinn fyrir nemendur er augljós. Þeir fá skýrari mynd af því sem þeir eru að vinna að í hverju tímabili, fá reglulega og markvissa endurgjöf frá kennurum sínum og upplifa að námsefnið er sett fram í viðráðanlegum einingum. Fyrir foreldra skapar þetta aukið traust, því ársskipulagið tryggir að börnin þeirra fái fjölbreytt og vel uppbyggt nám. Fyrir kennara veitir þetta aðhald og hagræðingu, og fyrir skólasamfélagið í heild felur það í sér meiri festu og fagmennsku. Með þessum vinnubrögðum verður skólinn ekki bara staður þar sem börn læra, heldur samfélag sem byggir á skýrum markmiðum, traustu skipulagi og góðu samstarfi allra aðila.
Eftir Kristrún Birgisdóttir 7. ágúst 2025
Undanfarin ár höfum við hjá Ásgarði - skólaráðgjöf boðið skólum, sveitarfélögum og foreldrum upp á lausn sem við köllum Nám alls staðar. Í þessu úrræði vinnum við oftast með skólum nemenda sem geta ekki mætt í skóla vegna ýmissa ástæðna. Oftast er það vegna ferðalaga fjölskyldunnar yfir lengri tíma en það hefur líka verið notað vegna langtímaveikinda. Í þannig tilfellum er úrræðið eingöngu í boði óski sveitarfélag eða skóli eftir aðstoðinni. Það er komin góð reynsla á námið, sem er alls ekki fyrir alla en skilar góðum árangri fyrir þá sem það hentar. Fjölskyldurnar fá leiðsögn og er námið hannað í kringum áhugasvið og styrkleika barnsins og alltaf út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár. Börn sem hafa farið í gegnum þetta úrræði hafa flest verið á mið- og unglingastigi. Hugmyndafræðin á bak við þetta er að nám geti átt sér stað alls staðar. Göngutúr fyrir barn sem þarf hreyfingu getur orðið uppspretta stærðfræðináms. Að telja glugga í háhýsi, leggja saman, margfalda og deila, er nám. Að skoða fuglana og gróðurinn í umhverfinu, segja frá því sem fyrir augum ber og jafnvel rannsaka eftir að heim er komið, er nám. Ferð á El Prado safnið í Madrid getur verið nám. Það er hægt að segja frá því sem maður sér, teikna, skrifa um það, læra um listamenn og listastefnur. Ein svona ferð getur verið mikið nám ef farið er af stað með ákveðin markmið í huga. Fyrir suma er lítið spennandi að fara erlendis með fullt af eyðufyllingar- bókum til að skrifa inn og það er líka spurning um gagnsemi. Er markmiðið að læra eitthvað af efninu eða fylla bara út í bókina til að hægt sé að segja að hafi nám átt sér stað? Hvernig er árangurinn mældur? Einn af okkar fyrrum flottu nemendum finnst yfirleitt leiðinlegt að skrifa, en þegar hann sér þörfina fyrir það, þá gerir hann. Hann var ekki spenntur fyrir námsbókunum sem hann fékk í skólanum hérna heima og sem hann fór með erlendis. Aftur á móti þá fann hann þörf á að gera glærur og halda kynningu um fótbolta í verkefni sem hann hafði aðgang að í námsumsjónarkerfinu okkar, enda mikill áhugamaður um þá íþrótt og hefur meira að segja hitt Messi - hans helst átrúnaðargoð. Hann ákvað svo þegar hann var 12 ára að hann vildi verða kokkur (hann er reyndar búinn að skipta um skoðun núna) og hann skrifaði kokkabók upp á 42 bls. Bókin er skrifuð til að vekja athygli á Duchenne sjúkdóminum, sem höfundurinn lifir með. Bókin verður gefin út, en hægt er að kaupa hana, styðja málefnið eða bara fá upplýsingar um hana með því að senda póst á lukkasvans@gmail.com. Eftir að hafa skrifað bókin, fór höfundurinn í skóla í landinu sem hann dvelur í. Þar var hann að læra að setja á stofn fyrirtæki og að gera viðskiptamódel. Bókin hans varð grunnurinn af fyrirtækinu en þurfti að vera á ensku. Hann vippaði henni því yfir á það tungumál. Þetta litla ritunarverkefni er því orðið að haug af allskonar þekkingu og leikni um leið og tengingar við hæfniviðmið og önnur markmið menntayfirvalda eru orðnar margar. Það sem meira er, ritunarverkefnið er orðið að einhverju áþreifanlegu og raunverulegu sem var ekki bara skrifað til að skila skólaverkefni, heldur til að setja mark sitt á umhverfið. Inni á Askinum - námsumsjónarkerfi Ásgarðs fá fjölskyldurnar aðgang að verkefnum sem hjálpa þeim að efla hæfni í því sem þau vilja ná að efla. Nemandi sem gerði fuglaþemað þar, fékk gríðarlegan áhuga á fuglum í framhaldinu en þemað snýst um margt annað eins og ritun, og hugtakaskilning. Verkefnið snertir á hæfniviðmiðum fyrir náttúrugreinar, íslensku, stærðfræði, list- og verkgreinar, lykilhæfni, ensku og upplýsinga- og tæknimennt. Flest þemun í Askinum eru samþætt við margar faggreinar því að nám á sér sjaldnast stað í sílói einnar faggreinar. Þegar við náum að kveikja innri áhugahvöt nemenda eins og oft hefur gerst í Námi alls staðar, þá gerast stórkostlegir hlutir. Nemendur sýna metnað til að gera verkefnin vel, því að þau læra að nýta styrkleika sína og áhugasvið til að uppfylla markmið aðalnámskrár. Þau halda utan um stjórnina á eigin námi með forráðamönnum en námið er hannað út frá því sem þau vilja læra og því sem þau þurfa að efla. Eldri nemendur skipuleggja námið sitt sjálfir og halda utan um það í verk- og tímaáætlunum sem ráðgjafi Ásgarðs hefur aðgang að. Ráðgjafinn sem sér um þetta úrræði, hefur alltaf yfirsýn yfir hvað er gert og hvað er metið. Að minnsta kosti tvisvar á önn eru fundir þar sem farið er yfir stöðuna, endurmetið það sem þarf að gera og kennslufræðileg aðstoð veitt. Við lok tímans í Námi alls staðar er námsárangur prentaður út úr kerfinu og skýrsla send á heimaskóla barnanna og/eða sveitarfélag sem skráir nemendur í úrræðið. Nám alls staðar er ekki skóli og aðeins tímabundin lausn. Þetta er úrræði sem hefur sýnt að nám er ekki bundið við byggingar, bækur eða tölvur. Nám gerist þegar áhugi og markmið mætast og þegar fjölskylda og kennari vinna saman að því að styðja við nemandann. Í Askinum er fjöldi verkefna sem hægt er að velja úr og það er alltaf hægt að bæta við öðrum verkefnum sem vekja áhuga nemandanna. Þannig verður námið klæðskerasniðið að hverjum og einum. Þegar það er gert verður námið ævintýri líkast.
Eftir Kristrún Birgisdóttir 1. apríl 2025
Í átta ár hefur skólastarf í Ásgarðsskóla - skóla í skýjunum verið í þróun. Árangurinn hefur verið frábær og vitnisburðir barna og aðstandenda þeirra einstaklega jákvæðir. Nú hefur Reykjavíkurborg einhliða og án nokkurs samráðs við Ásgarðsskóla ákveðið að beita sér gegn því að úrræðið fái að nýtast fleirum börnum í Reykjavík og hyggjast setja á fót sitt eigið. Að þróa vel heppnaðan skóla á netinu er ekki kökugerð sem gripin er með forskrift sem fæst í tilbúnum, ódýrum pakka sem hægt er að grípa uppi á hillu. Vel heppnaður fjarskóli fyrir börn, sem kerfin okkar hafa brugðist eða búa við flókinn vanda, verður til á löngum tíma, með færustu sérfræðingum og hópi fólks sem brennur fyrir nýsköpun og hefur eldmóð og þor til þess að hugsa út fyrir kassann. Ásgarðsskóli - skóli í skýjunum hefur verið í þróun sl. átta ár. Fyrstu nemendurnir voru nemendur í mjög fámennum skólum um landið og nemendur sem af fjölbreyttum ástæðum þurftu að stunda nám heima. Við einsettum okkur að átta okkur á þörfum nemendanna og finna leiðir til þess að mæta hverjum og einum á persónumiðaðan hátt, af skilningi og virðingu með því að fela þeim verkefni sem efldu þá hvern á sinn hátt án þess að gefa afslátt af kröfum aðalnámskrár. Þróunarskólaleyfið fyrir Ásgarðsskóla var í vinnslu í tvö ár frá árinu 2019 til 2021. Gögnin sem fylgdu umsókninni voru ítarleg og töldu á þriðja hundrað blaðsíðna. Leyfið fékkst loksins haustið 2021 og þá innrituðust tveir nemendur, sá þriðji bættist við um haustið. Samhliða gerðum við tilraunir með valgreinaskóla í fjarkennslu sem var samstarfsverkefni níu grunnskóla í jafnmörgum sveitarfélögum, flókið verkefni sem gekk bæði vel og illa en er nú fyrst og fremst starfrækt innan Ásgarðsskóla. Síðustu fjögur árin höfum við sem stöndum að Ásgarðsskóla þróað Tungumálaskólann sem er metnaðarfullt fjarkennsluúrræði þar sem við kennum nemendum með norsku og sænsku að móðurmáli. Ásgarðsskóli óx á grunni þessari fjölbreyttu reynslu en að þróuninni stóð teymi sem samanstendur af tuttugu innlendum og erlendum sérfræðingum sem hafa komið að málinu á einn eða annan hátt. Samanlagt hefur þessi reynsla og sérþekking gert Ásgarðsskóla að traustu námsumhverfi fyrir viðkvæma nemendahópa. Sérlega hefur verið vandað til með námskrána þar sem mjög fljótt kom á daginn að ríkjandi starfshættir henta þessum hópi nemenda engan veginn. Þess vegna var farin sú leið að fjárfesta verulega í ráðgjöf og aðgengi að erlendri námskrá frá Fieldwork education og þróa leiðir til að útfæra áherslur aðalnámskrár af sérstökum metnaði. Meginmarkmiðið var að finna leiðir til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda á framúrskarandi hátt. Dýrmætt var einnig samstarfið og ráðgjöfin frá Sophia High í London sem er virkur og vel heppnaður breskur fjarskóli fyrir börn frá 4 ára aldri. Allir kennarar í Ásgarðsskóla fá sérstaka þjálfun í starfsháttum við að koma til móts við fjölbreytileikann og beita þeim aðferðum sem reynsla okkar hefur sýnt að virki. Nú erum við með þrautþjálfaðan kennarahóp sem er farinn að hækka rána enn meira og starfshættir hópsins eru komnir langt fram úr þeim væntingum sem við sáum fyrir okkur í upphafi. Á þriðja ári gerði mennta- og barnamálaráðuneytið úttekt á skólanum sem staðfestir að starfið í Ásgarðsskóla er vandað, þar er eftirtektarverð fagmennska í fyrirrúmi og nemendum mætt einstaklega vel. Umbótatillögur voru smávægilegar og hafa nú þegar verið uppfylltar. Kerfisbundið innra mat er í góðum farvegi og skólinn stendur fyrir lýðræðislegri samvinnu og samstarfi við foreldra sem hafa raunveruleg áhrif á alla þætti skólastarfsins, þar með talið útfærslur á námi og kennslu. Námsmat er gagnsætt, mjög reglulegt og unnið í samstarfi við nemendur og foreldrum sex sinnum á ári. Reykjavíkurborg hefur verið stærsti viðskiptavinur okkar sl. þrjú ár og hefur treyst okkur fyrir dýrmætum hópi nemenda sem hefur átt það sameiginlegt að úrræði sveitarfélagsins varðandi skólagöngu þeirra hafa verið komin á endastöð. Þegar við stóðum frammi fyrir því að þurfa að framlengja þróunarskólaleyfið frá mennta- og barnamálaráðuneytinu sendi þáverandi sviðsstjóri skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar ítarlegt bréf til ráðuneytisins þar sem hann lýsir þeim einstaka árangri sem Ásgarðsskóli hefur náð með þennan nemendahóp. Kannanir og samtöl við foreldra og nemendur staðfesta að langflestir hafa náð að fóta sig á ný og komið sér í félagslega virkni úti í samfélaginu, komist í framhaldsskóla þrátt fyrir að hafa verið búnir að missa trúna á skólagöngu og/eða fundið fjölina sína úti í samfélaginu. Mörg barnanna hafa fullyrt að skólinn hafi bjargað lífið þeirra og keppast um að segja frá því (sjá t.d. hér). Í desember s.l. stóðu yfir viðræður Ásgarðsskóla við Reykjavíkurborg þar sem fyrirhugað var að semja um fjölda nemenda sem skólinn gæti tekið við á komandi skólaári og finna leiðir sem báðir aðilar gætu fellt sig við. Tafir urðu á viðræðum enda skipt um æðsta mann í brúnni í desember og nýr sviðsstjóri hóf ekki störf fyrr en í byrjun febrúar á þessu ári. Við komumst þá í samband við Stein Jóhannsson sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs sem óskaði eftir að fá meiri tíma til þess að fóta sig í nýju starfi áður en viðræður okkar héldu áfram. Það varð hins vegar ekkert af þessum viðræðum þar sem skóla- og frístundasvið hefur greinilega verið upptekið við undirbúning þess að koma á fót netskóla í einum af grunnskólum borgarinnar. Samkvæmt bókun skóla- og frístundasviðs er fyrirhugað að skólastarf hefjist strax í haust fyrir öll börn í Reykjavík sem talin eru þurfa þessa þjónustu. Ég hef ekki allar forsendur til að leggja mat á hvernig ætlað er að koma upp umræddri starfsemi á svo stuttum tíma en til þess að koma á vel heppnuðu netúrræði er ekki nóg að kaupa áskrift að Zoom og hefjast handa. Tillaga Steins fyrir hönd sviðsins og greinargerð bendir til þess að fyrirhugað sé að fara kökugerðarleiðina. Verði það raunin, verður þá lagt af stað í vegferð sem getur ekki annað en verið óvönduð. Þróunarkostnaður við að teikna upp skólastarf sem fram fer í netheimum er mikill, kerfin eru dýr og þjálfun starfsmanna tekur gríðarlegan tíma og þolinmæði, samanber það sem ég hef nú þegar talið upp hér að ofan. Skólamenning og verkferlar áætlana uppi í skýjunum er áskorun sem erfitt er að setja sig inn í án þess að hafa reynt það. Það væri einnig fullkomlega óeðlilegt ef skóla- og frístundasvið gæti hafið slíkt þróunarstarf án þess að fullnægjandi námskrá, áætlanir og verklag sé ítarlega rökstutt og útfært samkvæmt stefnu slíks skóla og hvernig fyrirhugað er að ná árangri. Mennta- og barnamálaráðuneytið hlýtur að gera sömu kröfur til Reykjavíkurborgar og gerðar voru til okkar að þessu leyti. Athygli vekur að ekki hefur verið leitað til Ásgarðsskóla á neinn hátt í þessum undirbúningi, ekki óskað eftir að skoða útfærslur á samstarfi og samningi byggðum á þeirri vinnu ásamt kostnaðarliðum. Þrátt fyrir einstakan árangur og reynslu okkar af uppbyggingu Ásgarðsskólans hefur engin tilraun verið gerð til að óska eftir samstarfi eða viðræðum um þróun þessa fyrirhugaða úrræðis Reykjavíkurborgar. Við töldum að við myndum vinna áfram með 20-25 börn fyrir Reykjavíkurborg, jafnvel fleiri eftir að samningagerð lyki. Það kom því algjörlega flatt upp á okkur þegar fréttir vikunnar og bókun Skóla- og frístundasviðs bárust okkur til eyrna, því ekki fengum við neinar upplýsingar um þessi áform fyrr, þótt að verulega styttist í næsta skólaár. Þegar farið var að grennslast fyrir kom einnig í ljós að allar umsóknir foreldra um skólavist í Ásgarðsskóla hefðu verið stoppaðar og má af því merkja að beina eigi öllum nemendum Reykjavíkurborgar í nýja úrræðið. Við verðum að setja veruleg spurningamerki við slíka starfshætti. Fyrir jafn viðkvæman nemendahóp og sérhæfðan málaflokk þarf að vanda betur vel til verka. Við höfum lagt okkur fram um að vanda inntöku nemenda, vera þess fullviss að skólinn væri heppilegt úrræði fyrir viðkomandi og að öll í umhverfi nemandans væru sammála því. Um það bil 17 nemendur af 50 eru með farsældateymi í kringum sig og fá að auki stuðning frá sérfræðingum skólans. Samstarf við nærumhverfi barnanna er stöðugt, ítarlegt og metnaðarfullt og á þetta við um öll börnin sem þess þurfa. Ásgarðsskóli er með skrifstofu í Reykjavík, þangað koma foreldrar af suðvesturhorninu, fá aðstoð og kennarar hitta nemendur í persónulegu umhverfi þegar á þarf að halda. Staðlotur eru reglulegar þar sem nemendur og kennarar hittast til að efla félagsleg tengsl. Rökin um að Reykjavíkurborg verði að veita þjónustuna í sínu nærumhverfi, með vísan í að Ásgarðsskóli sé ekki fær um það, standast því ekki. Skiljanlegra væri ef Reykjavíkurborg ætlaði sér að bjóða upp á einhverskonar blöndu af stað- og fjarnámi fyrir yngri nemendur og þau sem sýna byrjunareinkenni skólaforðunar og ef ljóst er í hvað stefnir. En eins og gögnin líta út, sem lögð voru fram í vikunni í skóla- og frístundaráði, sé ég ekki betur en að fyrirhugað sé að öll börn borgarinnar eigi að fara í nýja úrræðið hvort sem þau eru nú þegar t.d. nemendur í Ásgarðsskóla eða ekki. Þetta er að vísu aðeins lestur milli lína í fundargerð, en þar sem skóla- og frístundasvið hefur dregið á langinn öll samtöl við Ásgarðsskóla um áframhald okkar verulega árangursríka samstarfs höfum við ekki aðrar upplýsingar. Ef foreldrar eða barnavernd óska eftir að unglingar í Reykjavík fái að njóta skólavistar í Ásgarðsskóla væri það óskiljanlegt með öllu ef Reykjavíkurborg tæki ákvörðun um að banna val milli Ásgarðsskóla og nýja úrræðisins. Mikið hefur verið skrifað um vanda grunnskólanna í Reykjavíkurborg. Ég vona að fyrirhugað netúrræði borgarinnar verði ekki til þess að börnum í tuga eða hundraðatali verði gert að sitja heima og þau fjarlægð úr skólunum vegna þess að þar séu kennarar og skólastjórnendur bugaðir á ástandinu. Við viljum benda á þær alvarlegu afleiðingar sem geta orðið ef kastað er á glæ þeim lífsbjargandi árangri sem hefur náðst með nemendum okkar. Ég biðla til ykkar sem að málinu koma að ígrunda málið vel áður en lokaákvörðun verður tekin um að útiloka Ásgarðsskóla sem úrræði. Reikningsdæmið eins og það er sett upp í greinargerð málsins stenst ekki, ég get fullyrt það. Við erum búin að fjármagna þróunina, hún er verulega sérhæfð og metnaðarfull og það mun taka ykkur mörg ár og kosta margfaldar þessar 60 milljónir sem þið teljið að námið muni kosta. Það er fullkomlega óraunhæft að sú upphæð verði heildarkostnaðurinn, þ.e.a.s ef fyrirhugað er að ná árangri. Við höfum verið með þrjá kennara, skólastjóra, námskrárstjóra, náms- og starfsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðing, fjármálastjóra og sálfræðing og auk þess sérstakan starfsmann sem skrifar námsefni fyrir hópinn út frá námskránni. Þar að auki höfum við bæði þróað sjálf og tryggt okkur aðgengi að sérþekkingu og efni sérhæfðu fyrir fjarskóla. Við höfum aldrei innheimt hjá Reykjavíkurborg aukaframlag vegna sérfræðiþjónustu heldur séð um hana alla sjálf, þrátt fyrir að við hefðum skýran rétt á því að fá þann kostnað greiddan. Án efa hafa þeir skjólstæðingar okkar verið í raun mun kostnaðarsamari fyrir sveitarfélögin en einfaldir meðaltalsútreikningar í umræddri greinargerð virðast byggja á. Ásgarðsskóli hefur útvegað börnum tölvur og heyrnartól og skólabúning og greitt fyrir reglulegar staðlotur, efniskostnað og það sem til þarf. Enginn aukakostnaður hefur fallið á foreldra . Allt þetta er ótalið í „servéttu“ útreikningunum borgarinnar sem fylgja greinargerðinni. Stefna, sýn og helstu verkþættir eru jafnframt alveg óljós í greinargerðinni. Ásgarður skólaráðgjöf hefur árum saman reynt að opna augu íslenskra sveitarfélaga fyrir því að viðkvæmustu skjólstæðingum skólakerfisins verður að mæta með fjölbreyttari og mun metnaðarfyllri hætti en löngum hefur verið gert, ekki bara í Ásgarðsskóla heldur í öllum skólum landsins. Rúmlega 20 sveitarfélög hafa treyst okkur fyrir sínum viðkvæmustu nemendum með skólavist í Ásgarðsskóla. Við fögnum því aukinni athygli Reykjavíkurborgar á málaflokknum og viðurkenningu á því sem Ásgarðsskóli hefur barist fyrir. Við erum stolt af okkar hugsjón og árangri og skorum eindregið á skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar að vinna af heilindum að áframhaldandi samstarfi við Ásgarðsskóla í stað þess að kippa einhliða undan þeim stoðum sem rekstur og starfsemi skólans byggist á og útlit er fyrir nú. Bkv. Kristrún Lind Birgisdóttir Skólastjóri og eigandi Ásgarðs - skóla í skýjunum og Ásgarðs skólaráðgjafaþjónustu S: 8999063 - www.asgardsskoli.is Hafnarstræti 49 600 Akureyri Gögn https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-03-27-skola-og-fristundarad-reykjavikur-samthykkir-tilraunaverkefni-um-fjarnam-i-grunnskolum-439972 https://reykjavik.is/fundargerdir/skola-og-fristundarad-fundur-nr-289 https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/289_5.1%20Tillaga%20um%20fjarkennslu%20%C3%AD%20grunnsk%C3%B3la.pdf https://www.visir.is/g/20252707777d/sjalfstaedir-grunnskolar-i-haettu