Náms- og verkefnabækur - við getum gert betur

noreply • 8. janúar 2022

Fyrir um tveimur árum skrifaði Rósa Eggertsdóttir læsissérfræðingur mjög góða grein sem birtist í Stundinni og hét Um inniviði og 16.000 kennslustundir . Það er óhætt að mæla með lestri þessarar greinar sem fjallar um slaka útkomu ungmenna okkar í Pisa könnunum. Það er eitt og annað sem þarf að ræða betur eða ítarlegra sem kemur fram þarna eins og mikilvægi þess að fjölga tímum í íslensku. Það eru nú þegar ansi margir íslenskutímar en það vantar algjörlega að skoða gæði þeirra. Svo er líka spurning hvort að það sé mikilvægt að hafa alla þessa íslenskutíma ef að þeir skila ekki betri árangri en þetta.

Það er nefnilega betra að gera alla tíma að íslenskutíma ef að við ætlum að bæta kunnáttu nemenda. Það skiptir ekki öllu máli að nemandi geti sýni lesskilning í íslensku ef að það færist ekki yfir á önnur fög. Nýverið var undirrituð með fyrirlestur um samþættingu og þar kom fram viðhorf raungreinakennara sem taldi það ekki vera innan síns verksvið að meta íslenskukunnáttu nemenda. Gott og vel, en ef að við hættum að hugsa nám og kennslu í þessum kössum sem faggreinarnir búa til og færum fókusinn að námsmarkmiðum jafnvel margra greina í einu verkefni, þá getum við auðveldlega gert öll verkefni að íslenskuverkefni.

Þessi pistill er með yfirskriftina Náms- og vinnubækur, við getum gert betur. Í fyrrgreindri blaðagrein Rósu, þá segir hún "ef nemandi getur hjálparlaust ráðið við verkefni í vinnubók þarf hann ekki á þeim að halda". En við ytra mat á kennslustundum hefur komið í ljós að 75% kennslustunda hérlendis eru fræðandi kennslustundir sem þýðir að kennarinn er með alla athyglina eða nemendur eru að vinna í vinnubókum þar sem svörin eru ljós og það er bara eitt rétt svar. Markmið íslenskra menntayfirvalda er að hafa leiðbeinandi kennslustundir en þær reyndust svo vera 7% þeirra kennslustunda sem voru skoðaðar árið 2020. Þannig kennslustundir byggja ekki á fyrirlestrum, vinnubókavinnu eða eyðufyllingum. Þær byggja á verkefnum sem hægt er að útfæra á ýmsan hátt.

Í nýrri menntastefnu ríksisins eru m.a. þessar áherslur.:

Þar sem þetta er stefna yfirvalda og kennsla á að byggja á útgefnum stefnum, væri fróðlegt að heyra rök fyrir því að 75% kennslustunda séu fræðandi. Hvar væri allri þessari sköpun komið fyrir í þannig kennslu? Hvernig henta vinnubækur í verkefnum sem byggja á þessum kröfum?

Við gerð verkefna fyrir Námsgagnatorg Ásgarðs reynum við að hafa svona hluti á bak við eyrun. Við erum vissulega ekki að hugsa nám í kössum en við höfum reynslu af því að hversu auðvelt það er að gera öll verkefni að íslenskuverkefnum ef að við viljum. Hér er dæmi um mögulega útfærslu: Nemendur læra um orkuskipti. Þeir svara ákveðnum spurningum í verkdagbækur og þeir fá þau fyrirmæli að passa að hafa stóran staf eftir punkt, að hafa setningar ekki óþarflega langar og að nota fjölbreyttan orðaforða (ekki mikið um endurtekningar). Að vinnu lokinni þá kynna þeir verkefnið. Meðfylgjandi hæfniviðmið er úr íslensku- Ritun: Nemandi getur beitt helstu atriðum stafsetningar og greinarmerkjasetninga og hefur náð valdi á þeim. Viðmið um árangur er þá: Nemandi er með stóra stafi í upphafi setninga, hæfilegar langar setningar og er ekki með mikið af endurtekningum í textanum. Fyrir utan þetta, er verið að meta hæfni nemenda til kynna (sem er í mörgum faggreinahæfniviðmiðum) og hann er að vinna með orðaforða sem tengist náttúrugreinum.

Þegar nemendur fá skýr námsmarkmið sem m.a. eru tilgreind í viðmiði um árangur, þá skiptir ekki máli hvaða faggrein verið er að vinna með. Nemendur tikka í þau box sem þeim er gert að tikka í með því að uppfylla það sem beðið er um í viðmiði um árangur. En ef að nemendur eiga bara að passa stóran staf í upphafi setninga í einu fagi, 5 kennslustundir á viku (af 37), þá er ekki skrýtið að þeim gangi illa í íslensku. Ef að nemendur eiga bara að vinna með lesskilning í náttúrufræðitímum en vinna aðallega með málfræðiverkefni í íslenskutímum, þá eflist lesskilningurinn lítið. Það sama má segja ef að lesskilningur er þjálfaður 2x á ári í gegnum lestur bóka sem nemendur eiga að gera grein fyrir.

Ef að kennarar nota röng hugtök í hvaða fagi sem er, þá eflist hugtakaskilningurinn lítið. Undirritið hefur oft sagt frá því þegar hún lagði fyrir dæmi sem var hluti af kynningarprófi fyrir samræmd próf í stærðfræði þar sem nemendur voru beðnir að finna hver mismunur margfeldi ákveðinna tala og summa annarra talna væri. Meirihluti nemenda var í vandræðum með þetta dæmi. Ekki af því að þeir kunnu ekki að draga frá, margfalda eða leggja saman, heldur af því að þeir skyldu ekki spurninguna. Þeir þekktu það að mínusa, sinnuma og plúsa. Það voru hugtökin sem þeir notuðu og var notað þegar þeim var leiðbeint. Kennarar falla nefnilega oft í þá gryfju að einfalda nám nemenda og þá verður áherslan á að svara spurningum eða fylla í eyður rétt en ekki hvernig maður finnur svarið sem hlýtur að vera samt tilgangur náms.

Fyrir nokkrum árum þegar undirrituð var að leysa af í raungreinatímum þá var augljóst að nemendur lásu ekki textann í bókinni. Þeir lásu spurningarnar sem voru á "hinni" blaðsíðunni og skimuðu textann eftir réttum stað til að finna svarið. Ef að spurningin innihélt orð sem var ekki í textanum, voru margir í vandræðum, en flestir vissu að svarið væri á ákveðnum stað af því að spurningarnar voru í röð miðað við textann. Þeir vissu svo ekkert um það sem þeir voru að vinna með þegar tímanum var lokið og gátu ekki svarað spurningum mínum nema með því að leita í textanum, af því að þeir lásu aldrei allan textann. Svona vinnubrögð ýta ekki undir að nám eigi sér stað og námsmarkmið í svona tíma er að svara spurningum og klára blaðsíður en ekki að læra ákveðin atriði eða sýna hvernig maður getur gert grein fyrir þekkingu sinni.

Á Utís 2021 var mjög margt áhugavert sem fram kom í máli fyrirlesara en kannski það sem við ættum helst að taka með okkur og hafa á bak við eyrað í hvert sinn sem við leggjum fyrir verkefni er að tengja ekki framhjá námi nemenda, þ.e. að gefa þeim svörin. Annar fyrirlesari sagði - þegar þú kennir barni eitthvað, ertu búin að taka af því möguleikann að það geti lært það sjálft. Þegar við notum vinnubækur, erum við að tengja framhjá námi nemenda (þeir vita að það er eitt rétt svar og eru oft stressaðir yfir að skrifa það ekki alveg kórrétt) og við erum búin að taka af þeim möguleikann að þeir læri það atriði sjálfir.

Undirrituð las ritrýnda grein (fyrir meistaraverkefni) þar sem kom fram að rannsókn á kennslubókum í raungreinum sýndi að nemendum fer aftur í námi vegna þeirra. Kennslubækur eru taldar of yfirgripsmiklar og það er lítið svigrúm gefið til að kafa djúpt í atriði sem geta höfðað til nemenda og vakið áhuga þeirra. Aðal áherslan verður á að klára bókina og námsmarkmiðið snýst þá ekki síst um það atriði.

Við getum gert betur og ef að við höfum í huga annað sem kom fram á UTís 2021 þá vilja nýjar kynslóðir hafa áhrif, þær vilja ekki vera mataðar af upplýsingum og með því að vera með skýr námsmarkmið, þá getum við eflt metnað, þekkingu og hæfni nemenda umtalsvert.

Nú þegar ný önn er hafinn, hvet ég kennara til að búa til kennsluáætlanir sem byggja á námsmarkmiðum en ekki blaðsíðum eða kaflaheitum í bókum, að búa til verkefni þar sem nemendur fá tækifæri til að uppfylla og þjálfa það sem fram kemur í nýrri menntastefnu yfirvalda. Það eru góð markmið.

Gleðilegt ár

Anna María Kortsen Þorkelsdóttir - Ráðgjafi hjá Ásgarði í skýjunum


Eftir Kristrún Birgisdóttir 1. apríl 2025
Í átta ár hefur skólastarf í Ásgarðsskóla - skóla í skýjunum verið í þróun. Árangurinn hefur verið frábær og vitnisburðir barna og aðstandenda þeirra einstaklega jákvæðir. Nú hefur Reykjavíkurborg einhliða og án nokkurs samráðs við Ásgarðsskóla ákveðið að beita sér gegn því að úrræðið fái að nýtast fleirum börnum í Reykjavík og hyggjast setja á fót sitt eigið. Að þróa vel heppnaðan skóla á netinu er ekki kökugerð sem gripin er með forskrift sem fæst í tilbúnum, ódýrum pakka sem hægt er að grípa uppi á hillu. Vel heppnaður fjarskóli fyrir börn, sem kerfin okkar hafa brugðist eða búa við flókinn vanda, verður til á löngum tíma, með færustu sérfræðingum og hópi fólks sem brennur fyrir nýsköpun og hefur eldmóð og þor til þess að hugsa út fyrir kassann. Ásgarðsskóli - skóli í skýjunum hefur verið í þróun sl. átta ár. Fyrstu nemendurnir voru nemendur í mjög fámennum skólum um landið og nemendur sem af fjölbreyttum ástæðum þurftu að stunda nám heima. Við einsettum okkur að átta okkur á þörfum nemendanna og finna leiðir til þess að mæta hverjum og einum á persónumiðaðan hátt, af skilningi og virðingu með því að fela þeim verkefni sem efldu þá hvern á sinn hátt án þess að gefa afslátt af kröfum aðalnámskrár. Þróunarskólaleyfið fyrir Ásgarðsskóla var í vinnslu í tvö ár frá árinu 2019 til 2021. Gögnin sem fylgdu umsókninni voru ítarleg og töldu á þriðja hundrað blaðsíðna. Leyfið fékkst loksins haustið 2021 og þá innrituðust tveir nemendur, sá þriðji bættist við um haustið. Samhliða gerðum við tilraunir með valgreinaskóla í fjarkennslu sem var samstarfsverkefni níu grunnskóla í jafnmörgum sveitarfélögum, flókið verkefni sem gekk bæði vel og illa en er nú fyrst og fremst starfrækt innan Ásgarðsskóla. Síðustu fjögur árin höfum við sem stöndum að Ásgarðsskóla þróað Tungumálaskólann sem er metnaðarfullt fjarkennsluúrræði þar sem við kennum nemendum með norsku og sænsku að móðurmáli. Ásgarðsskóli óx á grunni þessari fjölbreyttu reynslu en að þróuninni stóð teymi sem samanstendur af tuttugu innlendum og erlendum sérfræðingum sem hafa komið að málinu á einn eða annan hátt. Samanlagt hefur þessi reynsla og sérþekking gert Ásgarðsskóla að traustu námsumhverfi fyrir viðkvæma nemendahópa. Sérlega hefur verið vandað til með námskrána þar sem mjög fljótt kom á daginn að ríkjandi starfshættir henta þessum hópi nemenda engan veginn. Þess vegna var farin sú leið að fjárfesta verulega í ráðgjöf og aðgengi að erlendri námskrá frá Fieldwork education og þróa leiðir til að útfæra áherslur aðalnámskrár af sérstökum metnaði. Meginmarkmiðið var að finna leiðir til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda á framúrskarandi hátt. Dýrmætt var einnig samstarfið og ráðgjöfin frá Sophia High í London sem er virkur og vel heppnaður breskur fjarskóli fyrir börn frá 4 ára aldri. Allir kennarar í Ásgarðsskóla fá sérstaka þjálfun í starfsháttum við að koma til móts við fjölbreytileikann og beita þeim aðferðum sem reynsla okkar hefur sýnt að virki. Nú erum við með þrautþjálfaðan kennarahóp sem er farinn að hækka rána enn meira og starfshættir hópsins eru komnir langt fram úr þeim væntingum sem við sáum fyrir okkur í upphafi. Á þriðja ári gerði mennta- og barnamálaráðuneytið úttekt á skólanum sem staðfestir að starfið í Ásgarðsskóla er vandað, þar er eftirtektarverð fagmennska í fyrirrúmi og nemendum mætt einstaklega vel. Umbótatillögur voru smávægilegar og hafa nú þegar verið uppfylltar. Kerfisbundið innra mat er í góðum farvegi og skólinn stendur fyrir lýðræðislegri samvinnu og samstarfi við foreldra sem hafa raunveruleg áhrif á alla þætti skólastarfsins, þar með talið útfærslur á námi og kennslu. Námsmat er gagnsætt, mjög reglulegt og unnið í samstarfi við nemendur og foreldrum sex sinnum á ári. Reykjavíkurborg hefur verið stærsti viðskiptavinur okkar sl. þrjú ár og hefur treyst okkur fyrir dýrmætum hópi nemenda sem hefur átt það sameiginlegt að úrræði sveitarfélagsins varðandi skólagöngu þeirra hafa verið komin á endastöð. Þegar við stóðum frammi fyrir því að þurfa að framlengja þróunarskólaleyfið frá mennta- og barnamálaráðuneytinu sendi þáverandi sviðsstjóri skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar ítarlegt bréf til ráðuneytisins þar sem hann lýsir þeim einstaka árangri sem Ásgarðsskóli hefur náð með þennan nemendahóp. Kannanir og samtöl við foreldra og nemendur staðfesta að langflestir hafa náð að fóta sig á ný og komið sér í félagslega virkni úti í samfélaginu, komist í framhaldsskóla þrátt fyrir að hafa verið búnir að missa trúna á skólagöngu og/eða fundið fjölina sína úti í samfélaginu. Mörg barnanna hafa fullyrt að skólinn hafi bjargað lífið þeirra og keppast um að segja frá því (sjá t.d. hér). Í desember s.l. stóðu yfir viðræður Ásgarðsskóla við Reykjavíkurborg þar sem fyrirhugað var að semja um fjölda nemenda sem skólinn gæti tekið við á komandi skólaári og finna leiðir sem báðir aðilar gætu fellt sig við. Tafir urðu á viðræðum enda skipt um æðsta mann í brúnni í desember og nýr sviðsstjóri hóf ekki störf fyrr en í byrjun febrúar á þessu ári. Við komumst þá í samband við Stein Jóhannsson sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs sem óskaði eftir að fá meiri tíma til þess að fóta sig í nýju starfi áður en viðræður okkar héldu áfram. Það varð hins vegar ekkert af þessum viðræðum þar sem skóla- og frístundasvið hefur greinilega verið upptekið við undirbúning þess að koma á fót netskóla í einum af grunnskólum borgarinnar. Samkvæmt bókun skóla- og frístundasviðs er fyrirhugað að skólastarf hefjist strax í haust fyrir öll börn í Reykjavík sem talin eru þurfa þessa þjónustu. Ég hef ekki allar forsendur til að leggja mat á hvernig ætlað er að koma upp umræddri starfsemi á svo stuttum tíma en til þess að koma á vel heppnuðu netúrræði er ekki nóg að kaupa áskrift að Zoom og hefjast handa. Tillaga Steins fyrir hönd sviðsins og greinargerð bendir til þess að fyrirhugað sé að fara kökugerðarleiðina. Verði það raunin, verður þá lagt af stað í vegferð sem getur ekki annað en verið óvönduð. Þróunarkostnaður við að teikna upp skólastarf sem fram fer í netheimum er mikill, kerfin eru dýr og þjálfun starfsmanna tekur gríðarlegan tíma og þolinmæði, samanber það sem ég hef nú þegar talið upp hér að ofan. Skólamenning og verkferlar áætlana uppi í skýjunum er áskorun sem erfitt er að setja sig inn í án þess að hafa reynt það. Það væri einnig fullkomlega óeðlilegt ef skóla- og frístundasvið gæti hafið slíkt þróunarstarf án þess að fullnægjandi námskrá, áætlanir og verklag sé ítarlega rökstutt og útfært samkvæmt stefnu slíks skóla og hvernig fyrirhugað er að ná árangri. Mennta- og barnamálaráðuneytið hlýtur að gera sömu kröfur til Reykjavíkurborgar og gerðar voru til okkar að þessu leyti. Athygli vekur að ekki hefur verið leitað til Ásgarðsskóla á neinn hátt í þessum undirbúningi, ekki óskað eftir að skoða útfærslur á samstarfi og samningi byggðum á þeirri vinnu ásamt kostnaðarliðum. Þrátt fyrir einstakan árangur og reynslu okkar af uppbyggingu Ásgarðsskólans hefur engin tilraun verið gerð til að óska eftir samstarfi eða viðræðum um þróun þessa fyrirhugaða úrræðis Reykjavíkurborgar. Við töldum að við myndum vinna áfram með 20-25 börn fyrir Reykjavíkurborg, jafnvel fleiri eftir að samningagerð lyki. Það kom því algjörlega flatt upp á okkur þegar fréttir vikunnar og bókun Skóla- og frístundasviðs bárust okkur til eyrna, því ekki fengum við neinar upplýsingar um þessi áform fyrr, þótt að verulega styttist í næsta skólaár. Þegar farið var að grennslast fyrir kom einnig í ljós að allar umsóknir foreldra um skólavist í Ásgarðsskóla hefðu verið stoppaðar og má af því merkja að beina eigi öllum nemendum Reykjavíkurborgar í nýja úrræðið. Við verðum að setja veruleg spurningamerki við slíka starfshætti. Fyrir jafn viðkvæman nemendahóp og sérhæfðan málaflokk þarf að vanda betur vel til verka. Við höfum lagt okkur fram um að vanda inntöku nemenda, vera þess fullviss að skólinn væri heppilegt úrræði fyrir viðkomandi og að öll í umhverfi nemandans væru sammála því. Um það bil 17 nemendur af 50 eru með farsældateymi í kringum sig og fá að auki stuðning frá sérfræðingum skólans. Samstarf við nærumhverfi barnanna er stöðugt, ítarlegt og metnaðarfullt og á þetta við um öll börnin sem þess þurfa. Ásgarðsskóli er með skrifstofu í Reykjavík, þangað koma foreldrar af suðvesturhorninu, fá aðstoð og kennarar hitta nemendur í persónulegu umhverfi þegar á þarf að halda. Staðlotur eru reglulegar þar sem nemendur og kennarar hittast til að efla félagsleg tengsl. Rökin um að Reykjavíkurborg verði að veita þjónustuna í sínu nærumhverfi, með vísan í að Ásgarðsskóli sé ekki fær um það, standast því ekki. Skiljanlegra væri ef Reykjavíkurborg ætlaði sér að bjóða upp á einhverskonar blöndu af stað- og fjarnámi fyrir yngri nemendur og þau sem sýna byrjunareinkenni skólaforðunar og ef ljóst er í hvað stefnir. En eins og gögnin líta út, sem lögð voru fram í vikunni í skóla- og frístundaráði, sé ég ekki betur en að fyrirhugað sé að öll börn borgarinnar eigi að fara í nýja úrræðið hvort sem þau eru nú þegar t.d. nemendur í Ásgarðsskóla eða ekki. Þetta er að vísu aðeins lestur milli lína í fundargerð, en þar sem skóla- og frístundasvið hefur dregið á langinn öll samtöl við Ásgarðsskóla um áframhald okkar verulega árangursríka samstarfs höfum við ekki aðrar upplýsingar. Ef foreldrar eða barnavernd óska eftir að unglingar í Reykjavík fái að njóta skólavistar í Ásgarðsskóla væri það óskiljanlegt með öllu ef Reykjavíkurborg tæki ákvörðun um að banna val milli Ásgarðsskóla og nýja úrræðisins. Mikið hefur verið skrifað um vanda grunnskólanna í Reykjavíkurborg. Ég vona að fyrirhugað netúrræði borgarinnar verði ekki til þess að börnum í tuga eða hundraðatali verði gert að sitja heima og þau fjarlægð úr skólunum vegna þess að þar séu kennarar og skólastjórnendur bugaðir á ástandinu. Við viljum benda á þær alvarlegu afleiðingar sem geta orðið ef kastað er á glæ þeim lífsbjargandi árangri sem hefur náðst með nemendum okkar. Ég biðla til ykkar sem að málinu koma að ígrunda málið vel áður en lokaákvörðun verður tekin um að útiloka Ásgarðsskóla sem úrræði. Reikningsdæmið eins og það er sett upp í greinargerð málsins stenst ekki, ég get fullyrt það. Við erum búin að fjármagna þróunina, hún er verulega sérhæfð og metnaðarfull og það mun taka ykkur mörg ár og kosta margfaldar þessar 60 milljónir sem þið teljið að námið muni kosta. Það er fullkomlega óraunhæft að sú upphæð verði heildarkostnaðurinn, þ.e.a.s ef fyrirhugað er að ná árangri. Við höfum verið með þrjá kennara, skólastjóra, námskrárstjóra, náms- og starfsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðing, fjármálastjóra og sálfræðing og auk þess sérstakan starfsmann sem skrifar námsefni fyrir hópinn út frá námskránni. Þar að auki höfum við bæði þróað sjálf og tryggt okkur aðgengi að sérþekkingu og efni sérhæfðu fyrir fjarskóla. Við höfum aldrei innheimt hjá Reykjavíkurborg aukaframlag vegna sérfræðiþjónustu heldur séð um hana alla sjálf, þrátt fyrir að við hefðum skýran rétt á því að fá þann kostnað greiddan. Án efa hafa þeir skjólstæðingar okkar verið í raun mun kostnaðarsamari fyrir sveitarfélögin en einfaldir meðaltalsútreikningar í umræddri greinargerð virðast byggja á. Ásgarðsskóli hefur útvegað börnum tölvur og heyrnartól og skólabúning og greitt fyrir reglulegar staðlotur, efniskostnað og það sem til þarf. Enginn aukakostnaður hefur fallið á foreldra . Allt þetta er ótalið í „servéttu“ útreikningunum borgarinnar sem fylgja greinargerðinni. Stefna, sýn og helstu verkþættir eru jafnframt alveg óljós í greinargerðinni. Ásgarður skólaráðgjöf hefur árum saman reynt að opna augu íslenskra sveitarfélaga fyrir því að viðkvæmustu skjólstæðingum skólakerfisins verður að mæta með fjölbreyttari og mun metnaðarfyllri hætti en löngum hefur verið gert, ekki bara í Ásgarðsskóla heldur í öllum skólum landsins. Rúmlega 20 sveitarfélög hafa treyst okkur fyrir sínum viðkvæmustu nemendum með skólavist í Ásgarðsskóla. Við fögnum því aukinni athygli Reykjavíkurborgar á málaflokknum og viðurkenningu á því sem Ásgarðsskóli hefur barist fyrir. Við erum stolt af okkar hugsjón og árangri og skorum eindregið á skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar að vinna af heilindum að áframhaldandi samstarfi við Ásgarðsskóla í stað þess að kippa einhliða undan þeim stoðum sem rekstur og starfsemi skólans byggist á og útlit er fyrir nú. Bkv. Kristrún Lind Birgisdóttir Skólastjóri og eigandi Ásgarðs - skóla í skýjunum og Ásgarðs skólaráðgjafaþjónustu S: 8999063 - www.asgardsskoli.is Hafnarstræti 49 600 Akureyri Gögn https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-03-27-skola-og-fristundarad-reykjavikur-samthykkir-tilraunaverkefni-um-fjarnam-i-grunnskolum-439972 https://reykjavik.is/fundargerdir/skola-og-fristundarad-fundur-nr-289 https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/289_5.1%20Tillaga%20um%20fjarkennslu%20%C3%AD%20grunnsk%C3%B3la.pdf https://www.visir.is/g/20252707777d/sjalfstaedir-grunnskolar-i-haettu
Eftir Kristrún Birgisdóttir 7. mars 2025
Á undanförnum árum höfum við hjá Ásgarð skólaráðgjöf unnið að því að skapa vettvang fyrir faglega umræðu um menntamál með því að gefa út Hlaðvarp Ásgarðs um menntamál. Hingað til höfum við gefið út 19 þætti, þar sem megin þemað hefur verið gæðamál. Þættirnir eru því oft og sérstaklega nýjustu sex þættirnir byggðir á viðmiðum um gæðastarf og eru hannaðir til að styðja kennara, skólastjórnendur og aðra sem starfa í menntakerfinu við að þróa og bæta skólastarf. Í þáttunum ræðum við við gesti og ráðgjafa Ásgarðs, sem veita innsýn í lykilhugtök og aðferðir sem styðja við markvissa og árangursríka skólaþróun. Við höfum lagt ríka áherslu á að tengja umræðuna við praktískar lausnir og reynslu úr vettvangi skólastarfs, þannig að hlustendur geti nýtt sér þekkinguna í eigin starfi. Hlaðvarpsþættirnir fjalla meðal annars um: Viðmið um gæðastarf - hvað einkennir góðan skóla og hvernig getum við unnið markvisst að umbótum? Nemendamiðað nám – aðferðir sem styrkja þátttöku og ábyrgð nemenda á eigin námi. Leiðsagnarmat og námsmat – hvernig við metum nám og framfarir á árangursríkan hátt. Faglegt lærdómssamfélag – hvernig kennarar og starfsfólk geta unnið saman að betri menntun og auknum gæðum í leik- námi og kennslu. Hagnýtar lausnir í skólastarfi – leiðir til að innleiða nýjar aðferðir í skólastarfi með áherslu á að deila reynslu og áætlunum sem nýtast í starfi. Hlaðvarpið hefur verið frábær leið til að miðla þekkingu og viðbrögðin hafa verið góð! Markmið okkar er að halda áfram að efla þessa umræðu og bjóða hlustendum upp á dýrmæt sjónarhorn og hagnýt ráð. 📢 Fylgstu með nýjustu þáttunum hér , allt telur þetta sem endurmenntun í starfi!
Eftir Kristrún Birgisdóttir 7. febrúar 2025
Landshlutaflakkið heldur áfram, en viðfangsefni grunnskólanna eru þau sömu um allt land. Í síðustu viku ræddum við tækifæri í Fjallabyggð til að sameina endurskoðun á viðmiðum aðalnámskrár, og í þessari viku var röðin komin að Bolungarvík. Báðir skólarnir hafa lengi unnið með námsvísa sem leiðarljós í skipulagningu kennslu. Við ræddum ýtarlega möguleikana á að sameina þessa vinnu – að innleiða ný hæfniviðmið og endurskoða skólanámskrárgerðina samhliða, með sérstaka áherslu á gæðanámsmat. Virkilega spennandi! Góð skólanámskrá þarf að vera vel ígrunduð og skiljanleg öllum sem koma að skólastarfinu. Námsumsjónarkerfi þurfa að styðja við ferlið, og hverjum þræði skólanámskrárinnar þarf að fylgja eftir. Það er því upplagt að slá tvær flugur í einu höggi. Þetta er þó alls ekki einfalt – mikilvægt er að taka skynsamlegar ákvarðanir í upphafi og gefa sér nægan tíma til að innleiða breytingarnar vandlega. Það eru margar leiðir til að hefja og vinna innleiðingarferlið. Gæðaráð undir forystu skólastjórnenda ásamt markvissu samráði eru lykillinn að góðum árangri. Hér má sjá mynd sem var teiknuð í Bolungarvík á þriðjudaginn – fyrstu tilraun til að kortleggja þá vinnu sem framundan er við að betrumbæta skólanámskrána og byggja á traustum grunni þeirrar reynslu sem þegar hefur skapast. Öllum er velkomið að nýta sér myndina og lesa úr henni! 😊
Fleiri færslur