Eftir Tinna Pálsdóttir 
 • 
 12. september 2025 
 
 Haustið er búið að vera líflegt og hefur einkennst af því að hjálpa skólum við að koma skipulagi á framsetningu og skipulagi á námi og kennslu. Námsvísar hafa í gegnum tíðina orðið að lykilverkfæri í því ferli. Skipulagsvinnan hefst ekki þegar nemendur mæta í skólann að hausti heldur strax að vori, áður en sumarfrí tekur við. Þá koma kennarar og stjórnendur saman til að setja upp grófa áætlun fyrir allt skólaárið. Þetta þýðir að þegar starfsfólk mætir aftur í ágúst er heildarskipulagið tilbúið og hægt er að einbeita sér að því að fínpússa fyrstu tímabilin. Slík nálgun tryggir að nemendur fari í gegnum öll þau viðfangsefni sem áætlað er að vinna með og að ekkert gleymist, óháð því hvernig skólaárið þróast.                                                    Skólaárinu er skipt niður í sex tímabil, hvert um sex vikur og á hverju tímabili er einn grunnþáttur menntunar hafður að leiðarljósi. Kennarar hengja kennsluáætlanir sínar á námsvísi (ársskipulag), sem tryggir bæði samræmi og gagnsæi. Þessi skipting í styttri lotur hefur reynst afar árangursrík. Hún hjálpar nemendum að sjá skýrari ramma utan um námið sitt og gefur kennurum betri yfirsýn yfir hæfniviðmið, námsmarkmið og matsviðmið. Þannig verður leiðsagnarmat skilvirkara og markmið námsins yfirstíganlegra.                                                              Á fundi sem haldinn var á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu á dögunum um skipulag náms, kennslu og mats í hæfnimiðuðu skólastarfi var þessi nálgun sérstaklega kynnt. Þar var mælst til þess að skólar skipuleggi nám og kennslu í 6–8 vikna tímabilum til að auðvelda yfirsýn, gera viðmiðin skýrari og stuðla að skilvirkara námi. Með þessum hætti verður námið markvissara, nemendur taka virkan þátt í eigin framvindu og kennarar hafa betra aðhald í sínum undirbúningi.                                                              Sumir skólar eru nýbúnir að taka upp þessa skipulagningu, en aðrir hafa unnið með hana árum saman. Reynsluboltarnir hafa þróað skýrar aðferðir til að nýta skipulagið, en það sem sameinar alla er sú sannfæring að ársskipulagið sé orðið að lykilatriði í gæðastarfi. Dæmi um skóla sem hafa tekið upp skýrt ársfyrirkomulag eru:                                                        Auðarskóli                                     Ásgarðsskóli                                     Bíldudalsskóli                                     Eldhamrar                                     Giljaskóli                                     Grunnskóli Bolungarvíkur                                     Grunnskóli Fjallabyggðar                                     Grunnskóli Grundarfjarðar                                     Grunnskóli Hólmavíkur                                     Grunnskóli Húnaþings vestra                                     Grunnskóli Önundarfjarðar                                     Grunnskólinn á Suðureyri                                     Grunnskólinn á Þingeyri                                     Grunnskólinn í Stykkishólmi                                     Höfðaskóli                                     Lækjarbrekka                                     Leikskóli Dalabyggðar                                     Patreksskóli Araklettur                                     Reykhólaskóli                                     Sólvellir                                     Tálknafjarðarskóli                                                      Fleiri skólar hafa auk þess tekið upp svokallaða þriggja ára rúllu. Það þýðir að þeir skipuleggja kennsluna með langtímasýn, þar sem áherslur hvers árs eru skýrar og tryggt er að öll markmið aðalnámskrár grunnskóla séu uppfyllt. Þannig missir enginn skóli sjónar á heildarmyndinni og nemendur fá samfellu í náminu sem nær yfir lengri tíma.                                                              Ávinningurinn fyrir nemendur er augljós. Þeir fá skýrari mynd af því sem þeir eru að vinna að í hverju tímabili, fá reglulega og markvissa endurgjöf frá kennurum sínum og upplifa að námsefnið er sett fram í viðráðanlegum einingum. Fyrir foreldra skapar þetta aukið traust, því ársskipulagið tryggir að börnin þeirra fái fjölbreytt og vel uppbyggt nám. Fyrir kennara veitir þetta aðhald og hagræðingu, og fyrir skólasamfélagið í heild felur það í sér meiri festu og fagmennsku.                                                              Með þessum vinnubrögðum verður skólinn ekki bara staður þar sem börn læra, heldur samfélag sem byggir á skýrum markmiðum, traustu skipulagi og góðu samstarfi allra aðila.