Lykill að fjarkennslu og fjarnámi á grunnskólastigi #COVID-19

noreply • 7. maí 2020

 

Lykill að fjarkennslu og fjarnámi á grunnskólastigi #COVID-19

Síðustu þrjú skólaár höfum við hjá Tröppu ráðgjöf kennt nemendum á mið- og unglingastigi "í fjar" eins og við köllum það. Nemendur hafa ýmist stundað nám alfarið heiman frá sér eða mætt að einhverju leyti í skólann sinn og stundað nám í fjar að hluta til. Þessi þrjú ár hafa verið okkur dýrmæt og afar mikilvæg reynsla safnast í sarpinn.

 Í haust ætlum við að stíga skrefið til fulls og opna grunnskóla fyrir nemendur á unglingastigi sem geta þá alfarið stundað nám óháð staðsetningu. Skólinn heitir Ásgarður og nú þegar er tekið við umsóknum - eina inntökuskilyrðið er að viðkomandi nemandi hafi aldur til að vera á unglingastigi, eða hafi náð 7. bekkjar hæfniviðmiðum - hafi trú á sjálfum sér og hafi vilja til þess að vinna sjálfstætt og með öðrum. Nemendur geta lokið unglingastiginu á tveimur til þremur árum í Ásgarði. 

Í ljósi þess að nú hafi verið lýst yfir neyðarástandi vegna heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar og líklegt er að innan skamms falli skólahald niður. Komi til þessa og að  börn á grunnskólaaldri þurfi að fá skólaþjónustu heimafyrir er okkur það ljúft og skilt að deila helstu ráðleggingum okkar um skipulag fjarnáms og kennslu á grunnskólastigi. 

Reynum að sjá fyrir okkur hvernig við gætum leyst málin í sameiningu - komi til þess að grunnskólum verði lokað í einhverjar vikur. 

Aðgengi að tölvum 

Skólar eru misvel búnir af tækjum og tólum og heimilin eru það líka. En gefum okkur að hægt verði að finna leiðir til þess að öll börn á unglinga- og miðstigi hafi aðgang að tölvum, símum eða spjaldtölvum heimafyrir. Grunnskólar eiga flestir í það minnsta einhver bekkjasett af fartölvum og spjaldtölvum. Gefum okkur að hægt verði að tryggja nemendum jafnt aðgengi að skjánum með því að lána tæki heim til þeirra heimila sem ekki búa svo vel að eiga þau til. 

Náms- og kennslusvæði - að koma verkefnum til nemenda

Það fyrsta sem þarf að huga að eru leiðir til þess að koma verkefnum til nemenda og hvernig kennarinn getur verið í beinu sambandi við nemendur. Fjarnám og kennsla þarf að byggja á virkum samskiptum nemenda og kennara - bókmiðað sjálfsnám þar sem nemendum eru settar fyrir blaðsíður og kaflar eftir greinum til að klára telst í besta falli vera bréfaskóli. 

Margir skólar eru nú þegar með Microsoft Teams (MT) eða Google Classroom (GC) aðgengilegt fyrir nemendur og kennara. Þar sem þeir starfshættir hafa fest í sessi er auðvelt að halda áfram að vinna með stafrænu náms- og kennslusvæðin til að koma upplýsingum, verkefnum og vera í samskiptum við nemendur. Þessar veitur leysa þó ekki allt enda fyrst og fremst staður til að geyma gögn fyrir nemendur og koma verkefnum og upplýsingum á milli kennara og nemenda. 

Sumir kennarar og skólar hafa nýtt lausnir frá Microsoft og Google án þess að nýta GC eða MT, þá hafa nemendur yfirleitt aðgang að tölvupósti og drifum með skjalavörslu í skýjunum. Með drifum í skýjunum og þar sem kennarinn getur fylgst með nemendum vinna í skjölunum sínum verður leiðsagnarmat leikur einn. Inni í skjölunum getur kennarinn skilið eftir athugasemdir, bent á hvað betur má fara og sett inn hlekki til að benda á frekari heimildir og leiðir til að ná betri árangri. Lykilatriði er að setja nemendunum fyrir verkefni sem fara á dýptina, taka tíma og eru lengi í vinnslu. Samþætting námsgreina og heildstæð verkefni eru skemmtilegri og líklegri til að tryggja virkni nemendanna. 

Þar sem kennarar hafa ekki fengið þjálfun í að nota ME eða GC er auðveldara að nota tölvupóstinn og/eða Mentor til að senda og taka við verkefnum heldur en að þjálfa kennara í að nota stafræn náms- og kennslusvæði. Það tekur tíma að komast upp á lagið með það. Lykilatriði hér er að nota það sem virkar nú þegar.

Fjarfundatæki 

Það skiptir ekki öllu máli hvaða tæki eru notuð til þess að eiga almenn samskipti við nemendur. Zoom.us er það forrit sem við höfum notað hvað mest í almennu kennslunni, Zoom er fjarfundaþjónusta sem greitt er fyrir en ekki samfélagsmiðill - það er hægt að nýta hluta þjónustunnar án þess að greiða fyrir hana en þá er notandinn bundinn við 20 mínútna fundi eingöngu. Zoom er auðvelt í notkun og auðvelt að læra að nota það. Kennarinn getur verið með marga nemendur á skjánum og getur líka fært nemendur í minni hópa og látið þá vinna sjálfstætt. Kúnstin er að námið sé nemendamiðað og krefjist þess að nemendur séu að glíma við verkefnin saman og komast að niðurstöðu. Hægt er að skrifast á við nemendur í einum hóp eða í minni hópum.. 

Zoom er gríðarlega stórt tæki sem býður upp á að kennarar geti tekið upp fyrirlestra og verið í margvíslegri virkni með nemendum - og það geta þeir gert sem eru snöggir upp á lagið með að tileinka sér tæknina. Einfaldasti hluti Zoom eru fundirnir - það er einfalt að læra að deila hlekk til dæmis með tölvupósti. Lykilatriði hér er að nota það sem kennarar treysta sér til að nota. Margar aðrar leiðir eru færar, Skype, Facebook og aðrir samfélagsmiðlar bjóða auðvitað upp á fjarfundi. Hér þarf að gæta að upplýstu samþykki þeirra sem taka þátt, persónuvernd og stefnu skólans. 

Uppáhalds fjarfundaformið okkar er sýndarveruleiki en í Oculus Quest er fjarfundabúnaður þar sem hægt er að funda með nemendum í kennslustofum og fyrirlestrarsölum. Þetta er fyrir lengra komna en er mun leiða til byltingar í fjarnámi og kennslu á öllum skólastigum. Búnaðurinn er eilítið þungur og hentar ekki börnum að vera með á höfðinu mjög lengi í einu en OC með Google Classroom eða Microsoft Teams og Zoom eru auðvitað mögnuð tæki. Lykilatriðið er að átta sig á aðsýndarveruleiki mun vega þungt í fjarkennslu í náinni framtíð. Þetta verður að koma fram þó að ólíklegt sé að sýndarveruleiki verði nýttur af nema framsýnustu skólum á þessum tímapunkti. 

Þegar verið er að vinna með einn nemanda í einu og ítrasta öryggis er krafist og verið er að fjalla um viðkvæm persónugreinanleg gögn og jafnvel færa þau á milli - er KaraConnect ( www.karaconnect.is ) frábær lausn og í raun eina leiðin sem uppfyllir íslenskar kröfur. Skólar geta að leigtsér svæði til þess að nýta sér Köru og svæði nemandans nýtist áfram í samskiptum við framtíðar námsráðgjafa ef dæmi er tekið. Landlæknir hefur staðfest KaraConnect  sem örugga leið frá persónuverndarsjónarmiðum

Kennslufræði 

Í fjarkennslu og námi er nauðsynlegt að hafa heildstætt nemendamiðað nám í fyrirrúmi og efla kerfisbundið nemendasjálfstæði. Eyðufyllingar og vinna með einhæft bóknám rúmast illa í alvöru fjarnámi þó að það sé auðvitað hægt að senda nemendur heim með bækur og halda svo fundi með þeim til að fá að heyra og sjá hvernig gengur að ljúka verkefnum þar. En það er ekki fjarnám! 

Ef vel á að vera er lykilatriði  að nýta tækifærið og slá tvær til þrjár flugur í einu höggi með því að samþætta stöðugt t.d. tungumál og náttúru og samfélagsfræðigreinar . Listin er "Teach less - learn more",sem gæti útlagst sem "Kenna minna - læra meira", þarf að vera leiðarljós í fjarnámi. Nemendur verða að fá tækifæri til að vinna saman, tala saman og ígrunda saman og í sitthvoru lagi. Fjarkennarinn heldur ekki börnum á skjánum í stöðugum fyrirlestrii - þá missa þau athyglina um leið. Það lærst fljótt að þekkja blikið í augunum á þeim þegar athyglin hverfur og færist yfir á youtube eða annað afþreyingarefni á skjánum. 

Það fer eftir aldri hversu lengi nemendum er haldið við skjáinn og hversu mörgum í einu. Galdratalan sem við höfum miðað við í fjar er um fimm nemendur í hópi. Það er vitanlega hægt að vera með stærri hóp í einu og Zoom býður upp á það að hafa hundruði saman að horfa. Sama með Google Hangout - þar eru engin takmörk. Þegar verið er að taka fyrstu skrefin mælum við með því að hafa fimm nemendur á skjánum í einu og svo má bæta smán saman við. "Breakout classrooms" í Zoom er leið til þess að taka hóp af nemendum og flokka saman í minni aðskilda skjáheimi sem kennarinn getur flakkað á milli eftir að hafa gefið fyrirmæli í stærri hóp nemenda. Lykilatriði er að kennarinn fikri sig áfram og hafi skýr markmið með kennslustundinni. 

Námsefni og kennsluáætlanir 

Heildstæð, samþætt verkefni eru lang besta leiðin til þess að vinna í fjar. Hér koma nokkrar hugmyndir að verkefnum eftir stigum og fyrirkomulagi fjarfunda/kennslu. Allar hugmyndirnar hér fyrir neðan gera ráð fyrir samþættingu námsgreina og úrvinnsla nemenda er persónumiðuð. Ein hugmynd eða eitt verkefni er teiknað upp og nemandinn vinnur út frá sinni getu og áhuga. Eitt verkefni og 25 ólíkar útkomur. Þessi listi er ekki tæmandi en gerður til þess að gefa hugmynd um hvað virkar best í vinnu með nemendum í fjar. 

Unglingastig 

Miðstig 

Yngsta stig 

Námskeið og stuðningur fyrir kennara 

Það er ekki víst að það gefist langur tími til að undirbúa fjarnám og kennslu nemenda ef að á allra næstu dögum verði sett á samkomubann og síðan skólahald lagt niður. Nú þurfa allir að leggjast á eitt til að nýta þá tækni sem fyrir er til þess halda uppi skólahaldi í einhverri mynd. Mögulega verður þessi krísa til þess að við þróum hratt með okkur starfhætti í fjarkennslu sem eru nemendamiðaðir og ekki síður skemmtilegir. Við hjá Tröppu ráðgjöf vonum það að minnsta kosti. Mögulega skapast líka góður tími fyrir kennara til að endumennta sig og þá er gott að vita af námskeiðum sem til dæmis Google for education og Microsoft Education bjóða upp á. 

Trappa ráðgjöf býður upp á fjölbreytta ráðgjöf fyrir skóla og stofnanir af öllu tagi og faglegan stuðning við sveitarstjórnir, fræðsluaðila, skólastjóra, kennara og foreldra. Trappa ráðgjöf býður skólaskrifstofu til leigu við útfærslu á lögbundnu skólastarfi, alhliða lausnir þar sem tæknin er höfð að leiðarljósi við að byggja undir einstaklingsmiðað nám, sérþekkingu á fjarkennsluverkefnum á grunnskólastigi og margt fleira. 

Kristrún Lind Birgisdóttir

Framkvæmdastjóri Ásgarðs (var Trappa ráðgjöf).

Akureyri 7. mars 2020 

(áður birt á bloggi Tröppu ráðgjafar)


Eftir Kristrún Birgisdóttir 24. október 2025
Innra mat í brennidepli – samtal, samvinna og innblástur Tæplega 60 stjórnendur úr leik- og grunnskólum tóku þátt í hagnýtri vinnustofu um innra mat og gæðastarf sem haldin var á Litla Torgi í Háskóla Íslands þann 23. október. Vinnustofan, sem skipulögð var fyrir Samtök sjálfstætt starfandi skóla, var hluti af metnaðarfullum áherslum samtakanna til að efla faglegt samtal, festa góðan starfsanda í sessi og byggja upp sameiginlegt verklag í gæðamálum sjálfstætt starfandi skóla. Markmiðið er að sjálfstætt starfandi skólar ástundi fyrirmyndar gæðastarfshætti og verði leiðandi í gæðamálum á Íslandi. Ráðgjafar Ásgarðs leiddu vinnustofuna þar sem markmiðið var að draga flókin vandamál saman á einblöðung og finna lausnir byggðar á gagnaöflun og betrumbættum starfsháttum. Þátttakendur unnu að fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum í hópum, svo sem að takast á við áskoranir eins og matvendni nemenda eða þegar stór hluti nemenda er enn ólæs við upphaf 2. bekkjar. Hóparnir þróuðu saman hagnýtar lausnir með orðfæri og aðferðum innra mats, með húmor og vaxandi hugarfar að leiðarljósi. Mikill metnaður þátttakanda var augljós sem og einbeittur vilji til að efla skilning á gæðamálum í menntastofnunum, samvinna var virk og þátttakendur óhræddir við að láta ljós sitt skína. Þátttakendur lýstu yfir mikilli ánægju með dagskrána og framsetninguna og sýndu áhuga á frekari stuðningi við innleiðingu gæðastarfs. Ekki skemmdi fyrir að María Ösp Ómarsdóttir, skólastýra í Árbæ, Árborg, lýsti mjög metnaðarfullri innleiðingu gæðastarfs í leikskólanum sínum. Þar hefur Maríu tekist að leiða starfsmannahópinn með miklum metnaði við að innleiða kerfisbundið innra mat á stuttum tíma, samhliða uppbyggingu skólastarfsins. Hún sýndi okkur að gæðastarf byggir á þátttöku starfsfólksins og sameiginlegum skilningi allra á markmiðum þess. Um var að ræða áhrifamikla frásögn af gríðarlega yfirgripsmikilli vinnu sem hefur skilað stöðugu og öruggu gæðastarfi í skólanum. Vinnustofan undirstrikaði mikilvægi samtals, samvinnu og stöðugrar endurskoðunar sem lykilþátta í gæðastarfi sjálfstætt starfandi skóla. Með markvissum aðferðum og samstilltu átaki verður innra mat ekki aðeins formlegt ferli, heldur lifandi verkfæri sem eflir skólastarf og farsæld barna. Við þökkum traustið sem okkur var sýnt með því að fela okkur að leiða þessa vinnustofu. Einnig þökkum við hlý orð og góðar viðtökur því þáttakendur voru ósparir á hrósið og lýstu yfir hversu gagnleg vinnan var. Kristrún, Tinna og Anna María
Eftir Kristrún Birgisdóttir 16. október 2025
Í nýjasta hlaðvarpi Ásgarðs ræða Kristrún Lind og Anna María Þorkelsdóttir mikilvægi kennsluáætlana í grunnskólum og þá staðreynd að þær vantar víða. Ný rannsókn Ásgarðs leiddi í ljós að einungis 16% grunnskóla landsins voru með virkar kennsluáætlanir í gildi fyrir haustið 2025 þegar málið var skoðað þann dagana 10.-14. október. Á þeim tímapunkti er um það bil 20% af skólaárinu þegar liðinn. Það er alvarlegt þegar litið er til þess að slíkar áætlanir eru bæði lögbundnar og grundvöllur góðs skólastarfs (1). Kennsluáætlanir eru lykilatriði í gæðastarfi skóla – þær tryggja samfellu í námi, gera nemendum kleift að skilja tilganginn með náminu og gera foreldrum kleift að fylgjast með og styðja börnin sín. Þegar áætlanir eru aðgengilegar á heimasíðu skólans fá bæði foreldrar og yfirvöld innsýn í áherslur í námi, kennslu og ekki síður námsmati (2). Í umræðunni kemur fram að skólum vanti oft leiðbeiningar og stuðning við gerð kennsluáætlana og hvernig má bæta stuðninginn. Einnig kemur fram að í mörgum tilvikum eru kennsluáætlanir geymdar lokaðar inni í kerfum eins og Mentor – sem torveldar gæðastarfi og hindrar samfellu milli árganga. Ásgarður hefur unnið með fjölmörgum skólum að því að þróa sex vikna kennsluáætlanir. Þær tryggja að kennslan sé markviss, heildstæð og í sífelldri endurskoðun. Með sex vikna lotum er auðveldara að meta árangur, færa áherslur og viðhalda gæðum námsins. Eitt helsta vandamál íslenskra grunnskóla er skortur á kerfisbundnum stuðningi við áætlanagerð kennara og styrkri faglegri forystu innan skólanna. Fjárfesta þarf í stuðningi við starfsfólk til að efla gæði skólanna og gagnsæi á starfseminni. Nýr kennari sem kemur inn í skóla ætti að geta gengið að sameiginlegum gögnum og kennsluáætlunum – ekki þurfa að byrja frá grunni. Þessi samfella er lykillinn að fagmennsku, gæðum og vellíðan nemenda og kennara3. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að 84% grunnskóla skorti virkar kennsluáætlanir. Góðar áætlanir eru ekki formsatriði – þær eru grunnur að farsæld barna, faglegu skólastarfi og traustu samstarfi heimila og skóla4. Hægt er að hlusta á hlaðvarpið hér í fullri lengd. Kristrún Lind Birgisdóttir Eigandi og ráðgjafi í Ásgarði Heimildir Lög um grunnskóla nr. 91/2008, 29. gr. og 31. gr. Um skólanámskrár og starfsáætlanir grunnskóla. Sótt af: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008091.html ↩ Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti. (2011). Kafli 12: Skólanámskrá og starfsáætlun skóla, bls. 46–48. Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Sótt af: https://www.stjornarradid.is (afrit í eigu notanda) ↩ Reglugerð nr. 1355/2022 um hæfniramma kennara og skólastjórnenda, sérstaklega kafli 5–7 um uppeldis- og kennslufræði, skipulag kennslu og faglegt samstarf. Sótt af: https://island.is/reglugerdir/nr/1355-2022 ↩ Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti (2011), kafli 1.3 og 7.5. Þar er lögð áhersla á fagmennsku kennara, mikilvægi skólabrags og upplýsingagjöf til foreldra. ↩
Eftir Tinna Pálsdóttir 12. september 2025
Haustið er búið að vera líflegt og hefur einkennst af því að hjálpa skólum við að koma skipulagi á framsetningu og skipulagi á námi og kennslu. Námsvísar hafa í gegnum tíðina orðið að lykilverkfæri í því ferli. Skipulagsvinnan hefst ekki þegar nemendur mæta í skólann að hausti heldur strax að vori, áður en sumarfrí tekur við. Þá koma kennarar og stjórnendur saman til að setja upp grófa áætlun fyrir allt skólaárið. Þetta þýðir að þegar starfsfólk mætir aftur í ágúst er heildarskipulagið tilbúið og hægt er að einbeita sér að því að fínpússa fyrstu tímabilin. Slík nálgun tryggir að nemendur fari í gegnum öll þau viðfangsefni sem áætlað er að vinna með og að ekkert gleymist, óháð því hvernig skólaárið þróast. Skólaárinu er skipt niður í sex tímabil, hvert um sex vikur og á hverju tímabili er einn grunnþáttur menntunar hafður að leiðarljósi. Kennarar hengja kennsluáætlanir sínar á námsvísi (ársskipulag), sem tryggir bæði samræmi og gagnsæi. Þessi skipting í styttri lotur hefur reynst afar árangursrík. Hún hjálpar nemendum að sjá skýrari ramma utan um námið sitt og gefur kennurum betri yfirsýn yfir hæfniviðmið, námsmarkmið og matsviðmið. Þannig verður leiðsagnarmat skilvirkara og markmið námsins yfirstíganlegra. Á fundi sem haldinn var á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu á dögunum um skipulag náms, kennslu og mats í hæfnimiðuðu skólastarfi var þessi nálgun sérstaklega kynnt. Þar var mælst til þess að skólar skipuleggi nám og kennslu í 6–8 vikna tímabilum til að auðvelda yfirsýn, gera viðmiðin skýrari og stuðla að skilvirkara námi. Með þessum hætti verður námið markvissara, nemendur taka virkan þátt í eigin framvindu og kennarar hafa betra aðhald í sínum undirbúningi. Sumir skólar eru nýbúnir að taka upp þessa skipulagningu, en aðrir hafa unnið með hana árum saman. Reynsluboltarnir hafa þróað skýrar aðferðir til að nýta skipulagið, en það sem sameinar alla er sú sannfæring að ársskipulagið sé orðið að lykilatriði í gæðastarfi. Dæmi um skóla sem hafa tekið upp skýrt ársfyrirkomulag eru: Auðarskóli Ásgarðsskóli Bíldudalsskóli Eldhamrar Giljaskóli Grunnskóli Bolungarvíkur Grunnskóli Fjallabyggðar Grunnskóli Grundarfjarðar Grunnskóli Hólmavíkur Grunnskóli Húnaþings vestra Grunnskóli Önundarfjarðar Grunnskólinn á Suðureyri Grunnskólinn á Þingeyri Grunnskólinn í Stykkishólmi Höfðaskóli Lækjarbrekka Leikskóli Dalabyggðar Patreksskóli Araklettur Reykhólaskóli Sólvellir Tálknafjarðarskóli Fleiri skólar hafa auk þess tekið upp svokallaða þriggja ára rúllu. Það þýðir að þeir skipuleggja kennsluna með langtímasýn, þar sem áherslur hvers árs eru skýrar og tryggt er að öll markmið aðalnámskrár grunnskóla séu uppfyllt. Þannig missir enginn skóli sjónar á heildarmyndinni og nemendur fá samfellu í náminu sem nær yfir lengri tíma. Ávinningurinn fyrir nemendur er augljós. Þeir fá skýrari mynd af því sem þeir eru að vinna að í hverju tímabili, fá reglulega og markvissa endurgjöf frá kennurum sínum og upplifa að námsefnið er sett fram í viðráðanlegum einingum. Fyrir foreldra skapar þetta aukið traust, því ársskipulagið tryggir að börnin þeirra fái fjölbreytt og vel uppbyggt nám. Fyrir kennara veitir þetta aðhald og hagræðingu, og fyrir skólasamfélagið í heild felur það í sér meiri festu og fagmennsku. Með þessum vinnubrögðum verður skólinn ekki bara staður þar sem börn læra, heldur samfélag sem byggir á skýrum markmiðum, traustu skipulagi og góðu samstarfi allra aðila.