Kennslustofan; Hólmavík – Akureyri – Hofgarður – New York

noreply • 14. september 2018

 

Kennslustofan; Hólmavík – Akureyri – Hofgarður – New York

Við í ráðgjafahópi Ásgarðs (áður Tröppu) erum svo heppin að vera með fjölbreytta innsýn inn í skólastarf – allt frá stefnumótun niður í hjartað á öllu skólastarfi – kennsluna sjálfa. Í vikunni átti sér stað tímamóta verkefni með skemmtilegri samvinnu milli unglinga tveggja lítilla skóla á landsbyggðinni; Grunnskólans í Hofgarði í Öræfasveit og Grunnskólans í Hólmavík. Þeir 672 kílómetrar sem skilja þessa tvo skóla að voru engin hindrun. Nemendurnir unnu í þremur hópum, tveim á Hólmavík og einum í Hofgarði. Umræðuefnið var 9/11 þar sem tímasetning bauð vissulega upp á það.

Kennsluaðferðin var leitar- og uppgötvunarnám þar sem unnið var eftir SOLE- leiðbeiningunum en þar er gert ráð fyrir því að spurning eða spurningar stjórni ferðinni í eina kennslustund. Í þessu tilviki höfðu kennararnir komið sér saman um að spurningin væri “Hvað gerðist 11. september 2001 og hvers vegna?”. Krakkarnir fengu 40 mínútur til þess að vinna úr spurningunni og áttu að taka saman kynningu að vinnu lokinni.  Þegar upplýsingaöflun var lokið og kynningarnar tilbúnar “ hittust ” hóparnir á fjarfundi þ.e. Hofgarðs nemendur í sínum skóla, þeirra fjarkennari á Akureyri og Hólmavíkur nemendur og kennarar á Hólmavík. Í gegnum fjarfundabúnaðinn Zoom.us kynntu hóparnir þrír niðurstöður sínar fyrir hinum hópunum. Að því loknu var boðið upp á spurningar og umræður um verkefnið. Í spjallinu lék nemendum í Hólmavík forvitni á að vita af hverju nemendur og kennari Hofgarðs voru ekki á sama landshlutanum, sem bauð upp á umræður um tæknimál og lausnir varðandi skort á kennurum á landsbyggðinni þar sem unglingarnir sjálfir gerðu grein fyrir tilurð verkefnisins og ávinningi.

Markmið verkefnisins, fyrir utan að samþætta ensku, samfélagsgreinar, upplýsingamennt og framsögn var að víkka sjóndeildarhring nemendanna og gefa þeim kost á að vinna með fleiri félögum en þeim sem eru með þeim i skóla.

Verkefnið tókst vel og lýstu nemendur yfir áhuga á áframhaldandi samstarfi milli nemenda hópanna. Hver  veit nema að næst fáum við til liðs við okkur einhvern frá New York! Það væri engin fyrirstaða.

Til gamans látum við fylgja með sýnishorn af leiðarljósi við skipulag kennslustundarinnar ( sjá hér fyrir neðan). Við njótum þess að útfæra hæfnimiðað nám og höfum grunnþættina ávallt að leiðarljósi.

Góðar stundir

Björk Pálmadóttir kennari og ráðgjafi í samstarfi við Esther Ösp Valdimarsdóttir á Hólmavík og krakkarnir á unglingastigi í Hofgarði og á Hólmavík.

Nánari kennslufræðileg útlistun;

Hér var grunnþátturinn lýðræði og mannréttindi hafður að leiðarljósi.

Lykilhæfni (sérstök áhersla):

Kennsluaðferðir og skipulag

Hæfniviðmið Aðalnámskrár:

Hópaskipting:

Lokaafurð lotunnar:

Kynning:

Námsmat:

Mat á kennslustundinni:


Eftir Kristrún Birgisdóttir 24. október 2025
Innra mat í brennidepli – samtal, samvinna og innblástur Tæplega 60 stjórnendur úr leik- og grunnskólum tóku þátt í hagnýtri vinnustofu um innra mat og gæðastarf sem haldin var á Litla Torgi í Háskóla Íslands þann 23. október. Vinnustofan, sem skipulögð var fyrir Samtök sjálfstætt starfandi skóla, var hluti af metnaðarfullum áherslum samtakanna til að efla faglegt samtal, festa góðan starfsanda í sessi og byggja upp sameiginlegt verklag í gæðamálum sjálfstætt starfandi skóla. Markmiðið er að sjálfstætt starfandi skólar ástundi fyrirmyndar gæðastarfshætti og verði leiðandi í gæðamálum á Íslandi. Ráðgjafar Ásgarðs leiddu vinnustofuna þar sem markmiðið var að draga flókin vandamál saman á einblöðung og finna lausnir byggðar á gagnaöflun og betrumbættum starfsháttum. Þátttakendur unnu að fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum í hópum, svo sem að takast á við áskoranir eins og matvendni nemenda eða þegar stór hluti nemenda er enn ólæs við upphaf 2. bekkjar. Hóparnir þróuðu saman hagnýtar lausnir með orðfæri og aðferðum innra mats, með húmor og vaxandi hugarfar að leiðarljósi. Mikill metnaður þátttakanda var augljós sem og einbeittur vilji til að efla skilning á gæðamálum í menntastofnunum, samvinna var virk og þátttakendur óhræddir við að láta ljós sitt skína. Þátttakendur lýstu yfir mikilli ánægju með dagskrána og framsetninguna og sýndu áhuga á frekari stuðningi við innleiðingu gæðastarfs. Ekki skemmdi fyrir að María Ösp Ómarsdóttir, skólastýra í Árbæ, Árborg, lýsti mjög metnaðarfullri innleiðingu gæðastarfs í leikskólanum sínum. Þar hefur Maríu tekist að leiða starfsmannahópinn með miklum metnaði við að innleiða kerfisbundið innra mat á stuttum tíma, samhliða uppbyggingu skólastarfsins. Hún sýndi okkur að gæðastarf byggir á þátttöku starfsfólksins og sameiginlegum skilningi allra á markmiðum þess. Um var að ræða áhrifamikla frásögn af gríðarlega yfirgripsmikilli vinnu sem hefur skilað stöðugu og öruggu gæðastarfi í skólanum. Vinnustofan undirstrikaði mikilvægi samtals, samvinnu og stöðugrar endurskoðunar sem lykilþátta í gæðastarfi sjálfstætt starfandi skóla. Með markvissum aðferðum og samstilltu átaki verður innra mat ekki aðeins formlegt ferli, heldur lifandi verkfæri sem eflir skólastarf og farsæld barna. Við þökkum traustið sem okkur var sýnt með því að fela okkur að leiða þessa vinnustofu. Einnig þökkum við hlý orð og góðar viðtökur því þáttakendur voru ósparir á hrósið og lýstu yfir hversu gagnleg vinnan var. Kristrún, Tinna og Anna María
Eftir Kristrún Birgisdóttir 16. október 2025
Í nýjasta hlaðvarpi Ásgarðs ræða Kristrún Lind og Anna María Þorkelsdóttir mikilvægi kennsluáætlana í grunnskólum og þá staðreynd að þær vantar víða. Ný rannsókn Ásgarðs leiddi í ljós að einungis 16% grunnskóla landsins voru með virkar kennsluáætlanir í gildi fyrir haustið 2025 þegar málið var skoðað þann dagana 10.-14. október. Á þeim tímapunkti er um það bil 20% af skólaárinu þegar liðinn. Það er alvarlegt þegar litið er til þess að slíkar áætlanir eru bæði lögbundnar og grundvöllur góðs skólastarfs (1). Kennsluáætlanir eru lykilatriði í gæðastarfi skóla – þær tryggja samfellu í námi, gera nemendum kleift að skilja tilganginn með náminu og gera foreldrum kleift að fylgjast með og styðja börnin sín. Þegar áætlanir eru aðgengilegar á heimasíðu skólans fá bæði foreldrar og yfirvöld innsýn í áherslur í námi, kennslu og ekki síður námsmati (2). Í umræðunni kemur fram að skólum vanti oft leiðbeiningar og stuðning við gerð kennsluáætlana og hvernig má bæta stuðninginn. Einnig kemur fram að í mörgum tilvikum eru kennsluáætlanir geymdar lokaðar inni í kerfum eins og Mentor – sem torveldar gæðastarfi og hindrar samfellu milli árganga. Ásgarður hefur unnið með fjölmörgum skólum að því að þróa sex vikna kennsluáætlanir. Þær tryggja að kennslan sé markviss, heildstæð og í sífelldri endurskoðun. Með sex vikna lotum er auðveldara að meta árangur, færa áherslur og viðhalda gæðum námsins. Eitt helsta vandamál íslenskra grunnskóla er skortur á kerfisbundnum stuðningi við áætlanagerð kennara og styrkri faglegri forystu innan skólanna. Fjárfesta þarf í stuðningi við starfsfólk til að efla gæði skólanna og gagnsæi á starfseminni. Nýr kennari sem kemur inn í skóla ætti að geta gengið að sameiginlegum gögnum og kennsluáætlunum – ekki þurfa að byrja frá grunni. Þessi samfella er lykillinn að fagmennsku, gæðum og vellíðan nemenda og kennara3. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að 84% grunnskóla skorti virkar kennsluáætlanir. Góðar áætlanir eru ekki formsatriði – þær eru grunnur að farsæld barna, faglegu skólastarfi og traustu samstarfi heimila og skóla4. Hægt er að hlusta á hlaðvarpið hér í fullri lengd. Kristrún Lind Birgisdóttir Eigandi og ráðgjafi í Ásgarði Heimildir Lög um grunnskóla nr. 91/2008, 29. gr. og 31. gr. Um skólanámskrár og starfsáætlanir grunnskóla. Sótt af: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008091.html ↩ Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti. (2011). Kafli 12: Skólanámskrá og starfsáætlun skóla, bls. 46–48. Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Sótt af: https://www.stjornarradid.is (afrit í eigu notanda) ↩ Reglugerð nr. 1355/2022 um hæfniramma kennara og skólastjórnenda, sérstaklega kafli 5–7 um uppeldis- og kennslufræði, skipulag kennslu og faglegt samstarf. Sótt af: https://island.is/reglugerdir/nr/1355-2022 ↩ Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti (2011), kafli 1.3 og 7.5. Þar er lögð áhersla á fagmennsku kennara, mikilvægi skólabrags og upplýsingagjöf til foreldra. ↩
Eftir Tinna Pálsdóttir 12. september 2025
Haustið er búið að vera líflegt og hefur einkennst af því að hjálpa skólum við að koma skipulagi á framsetningu og skipulagi á námi og kennslu. Námsvísar hafa í gegnum tíðina orðið að lykilverkfæri í því ferli. Skipulagsvinnan hefst ekki þegar nemendur mæta í skólann að hausti heldur strax að vori, áður en sumarfrí tekur við. Þá koma kennarar og stjórnendur saman til að setja upp grófa áætlun fyrir allt skólaárið. Þetta þýðir að þegar starfsfólk mætir aftur í ágúst er heildarskipulagið tilbúið og hægt er að einbeita sér að því að fínpússa fyrstu tímabilin. Slík nálgun tryggir að nemendur fari í gegnum öll þau viðfangsefni sem áætlað er að vinna með og að ekkert gleymist, óháð því hvernig skólaárið þróast. Skólaárinu er skipt niður í sex tímabil, hvert um sex vikur og á hverju tímabili er einn grunnþáttur menntunar hafður að leiðarljósi. Kennarar hengja kennsluáætlanir sínar á námsvísi (ársskipulag), sem tryggir bæði samræmi og gagnsæi. Þessi skipting í styttri lotur hefur reynst afar árangursrík. Hún hjálpar nemendum að sjá skýrari ramma utan um námið sitt og gefur kennurum betri yfirsýn yfir hæfniviðmið, námsmarkmið og matsviðmið. Þannig verður leiðsagnarmat skilvirkara og markmið námsins yfirstíganlegra. Á fundi sem haldinn var á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu á dögunum um skipulag náms, kennslu og mats í hæfnimiðuðu skólastarfi var þessi nálgun sérstaklega kynnt. Þar var mælst til þess að skólar skipuleggi nám og kennslu í 6–8 vikna tímabilum til að auðvelda yfirsýn, gera viðmiðin skýrari og stuðla að skilvirkara námi. Með þessum hætti verður námið markvissara, nemendur taka virkan þátt í eigin framvindu og kennarar hafa betra aðhald í sínum undirbúningi. Sumir skólar eru nýbúnir að taka upp þessa skipulagningu, en aðrir hafa unnið með hana árum saman. Reynsluboltarnir hafa þróað skýrar aðferðir til að nýta skipulagið, en það sem sameinar alla er sú sannfæring að ársskipulagið sé orðið að lykilatriði í gæðastarfi. Dæmi um skóla sem hafa tekið upp skýrt ársfyrirkomulag eru: Auðarskóli Ásgarðsskóli Bíldudalsskóli Eldhamrar Giljaskóli Grunnskóli Bolungarvíkur Grunnskóli Fjallabyggðar Grunnskóli Grundarfjarðar Grunnskóli Hólmavíkur Grunnskóli Húnaþings vestra Grunnskóli Önundarfjarðar Grunnskólinn á Suðureyri Grunnskólinn á Þingeyri Grunnskólinn í Stykkishólmi Höfðaskóli Lækjarbrekka Leikskóli Dalabyggðar Patreksskóli Araklettur Reykhólaskóli Sólvellir Tálknafjarðarskóli Fleiri skólar hafa auk þess tekið upp svokallaða þriggja ára rúllu. Það þýðir að þeir skipuleggja kennsluna með langtímasýn, þar sem áherslur hvers árs eru skýrar og tryggt er að öll markmið aðalnámskrár grunnskóla séu uppfyllt. Þannig missir enginn skóli sjónar á heildarmyndinni og nemendur fá samfellu í náminu sem nær yfir lengri tíma. Ávinningurinn fyrir nemendur er augljós. Þeir fá skýrari mynd af því sem þeir eru að vinna að í hverju tímabili, fá reglulega og markvissa endurgjöf frá kennurum sínum og upplifa að námsefnið er sett fram í viðráðanlegum einingum. Fyrir foreldra skapar þetta aukið traust, því ársskipulagið tryggir að börnin þeirra fái fjölbreytt og vel uppbyggt nám. Fyrir kennara veitir þetta aðhald og hagræðingu, og fyrir skólasamfélagið í heild felur það í sér meiri festu og fagmennsku. Með þessum vinnubrögðum verður skólinn ekki bara staður þar sem börn læra, heldur samfélag sem byggir á skýrum markmiðum, traustu skipulagi og góðu samstarfi allra aðila.